Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti HK-B í Fagralundi í dag og hófst leikurinn strax á eftir karlaleiknum sem var fyrr um daginn. Í liði HK er Elsa Sæný Valgeirsdóttir, fyrrum þjálfari karla- og kvennaliðs HK og einnig fyrrum aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í blaki. Hún er mikill leiðtogi á vellinum og öflug blakkona. Þjálfari HK er fyrrum landsliðsmaðurinn Emil Gunnarsson en mikið uppbyggingarstarf hefur verið hjá HK undanfarin áratug. BF var að spila sinn annan leik um helgina á meðan HK spilaði síðast í september og komu þær því nokkuð óþreyttar til leiks á meðan BF konur fengu aðeins sólahring í hvíld.
Fyrsta hrina gekk fljótt fyrir sig og var aðeins 16. mínútur. BF gekk ágætlega á upphafsmínútum leiksins og var jafnt á fyrstu tölum, 3-3 og 5-5. Eftir það tók HK völdin og skoruðu 5 stig í röð og breyttu stöðunni í 10-5. BF minnkaði muninn í 10-8 og 13-11. HK var svo mun sterkara liðið og gerði fá mistök og skoruðu tólf stig á móti þremur og unnu fyrstu hrinuna með yfirburðum 25-14.
Önnur hrina var mun jafnari og æsispennandi í lokin. Liðin skiptust á að leiða og tókst hvorugu liðinu að stinga af. Staðan var 10-10, 13-13 og 14-17 fyrir BF og tók nú þjálfari HK leikhlé. HK minnkaði muninn í 17-18 og komust yfir 21-19. Mikill spenna var nú í þessari hrinu síðustu mínúturnar. HK komst í 24-20 en BF konur skoruðu fimm stig í röð og komust yfir 24-25 og voru hársbreidd frá sigri í hrinunni. HK tók rándýrt leikhlé og skoruðu í framhaldinu þrjú stig og unnu 27-25 í upphækkun. Svekkjandi niðurstaða fyrir BF eftir mikla baráttu og góðan leik. Staðan orðin 2-0 fyrir HK.
Þriðja hrina var eign BF og byrjuðu þær af miklum krafti og átti HK engin svör. BF komst í 1-8 en HK minnkaði muninn í 5-9 áður en BF jók aftur forystuna í 5-13. HK skoraði næsta stig en svo kom frábær kafli hjá BF sem skoraði 7 stig í röð og lagði grunninn að sigrinum í þessari hrinu, staðan orðin 6-20. HK tók leikhlé í þessari törn hjá en það bar engan árangur, BF hélt áfram og komst í 9-21 og 14-23 og tók nú þjálfari BF leikhlé. BF kláraði hrinuna 16-25 og voru aftur komnar inn í leikinn og staðan 2-1.
HK stelpurnar voru svo sterkara liðið í fjórðu hrinu og byrjuðu þær hrinuna mjög vel og tóku forystu og komust í 8-3 og 13-8. BF minnkaði muninn í 15-12 og eigði smá von að komast inn í leikinn en HK komst í 20-13 og 23-15 og gerðu út um leikinn. HK vann svo 25-16 og leikinn þar með 3-1.
BF stelpurnar voru óheppnar að vinna ekki tvær hrinur í þessum leik, en svona er þetta stundum.