Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Aftureldingu X sem er nýsamsett lið í Benecta deildinni og hefur leikið tvo leiki og unnið báða. Mikil gróska er í blakinu í Mosfellsbæ og er félagið einnig með liðið Afturelding B í sömu deild. BF hafði tapað síðustu tveimur leikjum og ætluðu sér að sækja sigur í þessum leik.

Stelpurnar í BF mættu ákveðnar til leiks í fyrstu hrinu og voru með yfirhöndina alla hrinuna og náðu á köflum ágætis forskoti. Þær komust í 6-2, 9-5 og 15-9 en þá tóku gestirnir leikhlé. BF hélt áfram að skora og komust í 17-10 og 19-13. Afturelding saxaði aðeins niður forskotið og gerðu sig líklega til að komast inn í leikinn og var staðan orðin 20-19 eftir góðan kafla hjá þeim og fjögur stig í röð. Lokamínúturnar voru æsispennandi og var leikurinn jafn í 22-22 en BF skoraði síðustu þrjú stigin og unnu 25-22 og voru komnar í 1-0.

Önnur hrina var frekar köflótt og skiptust liðin á að eiga góða leikkafla en Afturelding var heilt yfir sterkari í þessari hrinu og leiddu oft með miklum mun. Afturelding komst í 5-9 og 8-14 og tók þá þjálfari BF leikhlé. Gestirnir héldu áfram að skora og komust í 10-19 og 13-20. Í stöðunni 14-23 leit allt út fyrir að gestirnir myndu klára hrinuna með öruggri forystu en BF stelpurnar komu til baka og minnkuðu muninn í 20-23 með sex stigum í röð og settu spennu í leikinn aftur. BF komst í 22-24 en Afturelding náði lokastiginu og vann hrinuna 22-25 og jafnaði leikinn 1-1.

Þriðja hrina var líka jöfn og spennandi en Afturelding leiddi þó hrinuna að mestu leiti.  Gestirnir komust í 3-6 og 8-10 en BF jafnaði 13-13. Aftur var jafnt í 16-16 og 19-19 og var eyddi BF mikilli orku í að vinna upp muninn. Áfram var jafnt og spennandi á lokamínútum hrinunnar og var staðan 20-20 og 22-22. Ekkert leikhlé var tekið á lokakaflanum og skoraði Afturelding síðustu þrjú stigin og vann hrinuna 22-25 og komst í 1-2.

BF stelpurnar komu aftur ákveðnar til leiks og leiddu í upphafi hrinunnar 6-2, 8-3 og 10-6. Afturelding komst jafnt og þétt inn í leikinn og náðu undirtökunum eftir þetta. Þær jöfnuðu loks leikinn 11-11 og sigu framúr og náðu öruggri forystu. Í stöðunni 13-17 tók þjálfari BF loks leikhlé til að koma upplýsingum til leikmanna. Afturelding herti tökin og allt virtist ganga upp hjá þeim og þær komust í 14-20 og aftur tók BF leikhlé. Afturelding var mun betra liðið á lokakaflanum og unnu hrinuna örugglega 16-25 og leikinn þar með 1-3.

Það vantaði bara herslu muninn í þessum leik að BF fengi fleiri sigraðar hrinur. Nýr þjálfari er enn að fínpússa liðið saman og koma með sínar áherslur inn á völlinn.