Knattspyrnufélag Fjallabyggðar (KF) var stofnað við samruna Knattspyrnufélags Siglufjarðar (KS) og Leifturs frá Ólafsfirði. Samruni liðanna átti sér stað árið 2010 með tilkomu Héðinsfjarðarganga. Stofnendur félagsins eru Róbert Jóhann Haraldsson, Hlynur Guðmundsson, Gunnlaugur Sigursveinsson, Magnús Þorgeirsson og Dagný Finnsdóttir. Á heimasíðu KF má sjá góða samantekt í tilefni þessa áfanga.

Í júní hefst 10. tímabil KF og á þessum tíma hefur KF spilað fimm sinnum í 2. deild, einu sinni í 1. deild og þrisvar í 3. deild og verður það því 6 tímabil KF í 2. deild árið 2020. Á þessum tíma hefur KF spilað 190 deildarleiki og unnið 79 leiki, gert jafntefli 38 sinnum og tapað 73 leikjum.

Umfjallanir: 

Vefmiðillinn Héðinsfjörður.is hefur fylgt KF frá árinu 2011 og skrifað reglulega fréttir og umfjallanir frá Íslandsmótinu með aðstoð styrktaraðila. Í ár verður 10. tímabilið sem vefurinn fylgir eftir KF með fréttum og umfjöllunum frá leikjum liðsins.

Markahæstir:

Markahæsti leikmaður KF frá stofnun 2010 er Alexander Már Þorláksson en hann hefur skorað 46 mörk fyrir KF í 43 leikjum sem er magnað afrek. Alexander Már hefur spilað tvö tímabil fyrir KF, í fyrra skiptið árið 2015 í 2. deild þar sem hann skoraði 18 mörk. Seinna tímabil hans hjá KF var árið 2019 þar sem hann skoraði 28 mörk.
Næstur í röðinni er Siglfirðingurinn Þórður Birgisson. Þórður hefur skorað 35 mörk fyrir KF í 57 leikjum. Þórður hóf sinn feril með KS árið 2001 og eftir það hefur hann spilað með ÍA, HK, KS/Leiftri, Þór og svo KF. Þórður spilaði fyrir KF tímabilin 2011, 2012, 2013 og 2016 þar sem hann var spilandi þjálfari síðasta árið sitt.
Þriðji markahæsti leikmaður í sögu KF er annar Siglfirðingur, Gabríel Reynisson.  Gabríel skoraði 21 mark í 69 leikjum fyrir KF.

100 leikja klúbburinn:

Þrír leikmenn hafa náð að leika 100 leiki fyrir KF, en það eru: Halldór Ingvar Guðmundsson með 158 og spilar enn, Halldór Logi Hilmarsson með 131 og spilar enn og Grétar Áki Bergsson með 109 leiki og spilar enn með liðinu.

Þjálfarar:

Þjálfarar meistaraflokks KF hafa verið 7 á þessum 10 árum. Hér fyrir neðan kemur listi þjálfara meistaraflokks KF.

Lárus Orri Sigurðsson – 66 leikir (2011-2013)
Dragan Stojanovic – 24 leikir (2014)
Jón Aðalsteinn Kristjánsson – 21 leikir (2015) (1 leikur 2016 og 1 leikur 2019)
Jón Stefán Jónsson – 16 leikir (2016)
Þórður Birgisson og Halldór Ingvar Guðmundsson – 5 leikir (2016)
Slobodan Milisic – 59 leikir (2017-  )*

Erlendir leikmenn:

Með KF frá árinu 2010 hafa spilað 25 erlendir leikmenn.

Heimild texta: KFbolti.is.