Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Reyni í Sandgerði í dag í 3. deild karla í knattspyrnu. Búist var við jöfnum leik í dag en liðin höfðu mæst í Lengjubikarnum í vor og fór sá leikur 1-1. Liðin höfðu einnig mæst 9 sinnum frá árinu 2011, og hafði Reynir unnið fjóra leiki, liðin gert tvö jafntefli og KF hafði unnið þrjá leiki.

Aðstæður og veður voru til fyrirmyndar í dag á Europcarvellinum í Sandgerði. KF var í 3. sæti með 19 stig og Reynir í 5. sæti með 15 stig fyrir þennan leik. Tvær breytingar voru í félagskiptaglugganum í júlí hjá KF, en Kristófer Andri fór til Samherja, en hann lék með KF í vor og síðustu leiktíðir, en hafði ekki leikið í deildinni í ár. Tómas Veigar Eiríksson er kominn aftur að láni og byrjaði hann á bekknum í þessum leik. Hann er leikmaður KA en var á láni hjá Magna í sumar. Hann spilaði 20 leiki á síðustu leiktíð með KF og þekkir því aðstæður vel.

KF byrjaði leikinn af krafti og voru strákarnir staðráðnir í að sækja öll þrjú stigin sem í boði voru.  Vitor braut ísinn strax á fjórðu mínútu með góðu marki og kom KF í 0-1. KF fékk vítaspyrnu á 20. mínútu og skoraði Alexander Már örugglega úr henni og kom KF í 0-2. Heimamenn minnkuðu muninn á 31. mínútu og var staðan þá orðin 1-2 og smá spenna komin aftur í leikinn. KF var hins vegar ekki lengi að svara þessu marki, en Ljubomir Delic skoraði á 36. mínútu eftir stoðsendingu frá Val Reykjalín, og kom KF í 1-3. Alexander Már gerði svo sitt annað mark í uppbótartíma og kom KF í þægilega stöðu, 1-4, eftir góða sendingu frá Vitor, en þannig var staðan í hálfleik.

Heimamenn gerðu strax tvöfalda skiptingu í upphafi síðari hálfleiks, í þeirri von að komast inn í leikinn. KF var hins vegar ekkert að fara gefa neitt eftir, og Jakob Auðun skoraði á 60. mínútu og kom KF í 1-5 eftir sendingu frá Val Reykjalín. Heimamenn gerðu tvær skiptingar til viðbótar, en þær skiluðu litlu, og gátu KF leyft sér að gera fimm skiptingar á síðustu 15 mínútum leiksins. Á 75. mínútu kom  Halldór Logi inná fyrir Ljubomir.  Á 80. mínútu kom Tómas Veigar inná fyrir Jakob. Stefán Bjarki og Þorsteinn Már komu inná fyrir Vitor og Óliver á 82. mínútu.  Að lokum fékk Halldór markmaður skiptingu á 85. mínútu og kom Sindri inná. Halldór hafði nokkrum sinnum varið glæsilega í leiknum.

Frábær frammistaða hjá KF í dag.

Eftir 10 umferðir þá eru fjögur lið að berjast um topp sætin, KF er í þriðja sæti með 22 stig, einu stigi á eftir Kórdrengjum og þremur stigum á eftir KV sem er í efsta sætinu. Vængir Júpiters elta KF og eru með 21 stig í fjórða sætinu.