Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

KF heimsótti Kórdrengina í Safamýrina í Reykjavík í dag í blíðviðri og léttum vindi. Aðstæður og umgjörð leiksins voru til fyrirmyndar og gátu áhorfendur fengið sér kandífloss eða keypt sér hamborgara.  Að auki var frítt á völlinn.

Búist var við mjög erfiðum leik enda hafa Kórdrengirnir farið vel af stað á Íslandsmótinu og voru ósigraðir eftir fyrstu sjö umferðirnar. Liðið hafði að auki skorað 8 mörk í síðustu tveimur leikjum mótsins. Kórdrengir komu upp úr 4. deildinni á síðasta ári og eru með góðan hóp. Markmaður liðsins er Ingvar Þór Kale, sem er með mikla reynslu og leikið 300 leiki í meistarflokka, flesta í efstu deild.

Heimamenn byrjuðu leikinn vel, stjórnuðu leiknum fyrstu 25 mínúturnar í fyrri hálfleik og fengu ótal færi á þeim kafla, áttu nokkur skot í stöng og slá og Halldór markmaður KF hélt liðinu algerlega á floti í fyrri hálfleik og átti hann mjög góðan leik. KF liðið bakkaði óþarflega mikið á þessum kafla og var oft í nauðvörn og gekk illa að halda boltanum en Kórdrengir voru mun meira með boltann. Um miðjan síðari hálfleik var ljótt brot á leikmanni KF úti við hliðarlínuna þar sem virtist vera tveggja fóta tækling, en dómarinn dróg aðeins upp gula spjaldið og voru stuðningsmenn KF í stúkunni ekki ánægðir með þann dóm.

Heimamenn fengu nokkrar hornspyrnur í fyrri hálfleik og var ávalt hætta í kringum þær. Það var algerlega gegn gangi leiksins þegar KF skoraði eftir góða skyndisókn undir lok fyrri hálfleiks, og var þar að verki Halldór Logi Hilmarsson, hans annað mark í sumar.

KF leiddi því mjög óvænt í hálfleik 0-1 á Framvellinum.

Síðari hálfleikur var jafnari en KF lág þó aftur á vellinum og beitti skyndisóknum og lokaði svæðum á Kórdrengina og stilltu upp í föst leikatriði þegar færi gáfust. Um miðjan síðari hálfleik skoraði KF aftur og var það fyrirliðinn Grétar Áki sem kom þeim í 0-2. Mjög óvænt miðað við gang mála í fyrri hálfleik. Eftir markið gerði KF fljótlega tvær skiptingar, Valur Reykjalín og Hákon Leó komu inná fyrir Sævar og Grétar Áka.

Kórdrengir héldu áfram að sækja og skapa sér færi fram á síðustu mínútu leiksins, og loks kom að því að þeir skoruðu mark í uppbótar tíma, og minnkuðu muninn í 1-2. KF gerði svo tvær skiptingar í uppbótar tíma til að fá ferska menn inná og til að drepa niður leikinn.  Eftir langan uppbótartíma flautaði loksins dómari leiksins og KF vann ótrúlegan sigur í þessum toppslag, 1-2 og fá þrjú dýrmæt stig.

KF er nú í 2. sæti deildarinnar eftir 8 umferðir og er með 19 stig.

Ljósmynd: Magnús Rúnar Magnússon /Héðinsfjörður.is
Ljósmynd: Magnús Rúnar Magnússon /Héðinsfjörður.is