Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsækir Vængi Júpiters á morgun og fer leikurinn fram á gervigrasinu við Egilshöll í Grafarvogi. Leikurinn hefst kl. 16.00, sunnudaginn 8. september.
Vængirnir eru í 4. sæti deildarinnar og geta nálgast KV með sigri í þessum leik og blandað sér enn frekar í baráttuna á toppnum. KV lék í gær við KH og vann stórsigur, 6-0 og hefur heldur betur sett pressu á KF í þessari umferð. Munar nú aðeins þremur stigum á KF og KV en KF getur með sigri aukið forskotið aftur í 6 stig. KF á aðeins eftir að leika þrjá leiki og þarf á fleiri stigum að halda til að tryggja sér sæti í 2. deildinni að ári. Vænirnir hafa unnið þrjá síðustu leiki í deildinni, en töpuðu tveimur leikjum þar á undan. KF tapaði síðasta leik en átti langa sigurhrinu þar á undan.
Vængirnir hafa skorað minnst af toppliðunum fjórum í 3. deildinni, en þeir hafa aðeins skorað 35 mörk í 19 leikjum, á meðan Kórdrengir, KF og KV hafa skorað um og yfir 50 mörk. Vængirnir hafa ekki verið sterkir á heimavelli í sumar og aðeins unnið 3 leiki af 9, gert eitt jafntefli og tapað 5. Þeir hafa hins vegar bestan árangur liðanna í 3. deild á úti velli og hafa unnið 9 leiki af 10 og tapað aðeins einum leik.
KF er með ágætis árangur á útivelli í sumar og hafa unnið 7 leiki af 9, gert eitt jafntefli og tapað aðeins einum leik.
Fyrri leikur liðanna á Ólafsfjarðarvelli fór fram í lok júní og unnu þá Vængirnir 2-3. Á síðasta ári þá kepptu liðin einnig í deildinni og unnu liðið bæði sína heimaleiki 2-0. Árið 2017 mættust liðin einnig í deildinni og var þá mikil markaveisla þegar KF vann 5-0 á Ólafsfjarðarvelli og Vængirnir unnu 5-3 á sínum heimavelli.
Búast má við jöfnum og erfiðum leik og er mikið í húfi fyrir bæði lið. Stuðningsmenn KF á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að mæta á völlinn og hvetja liðið áfram.
Þegar öll tölfræði er skoðuð þá má reikna með 1-2 sigri KF í þessum leik, fyrir þá sem vilja spá fyrir úrslitum.