Formlegri leit að hvítabirni sem talinn var vera við Húnaflóa er lokið í dag. Stýrimaður þyrlu Landhelgisgæslunnar sem fór um svæðið í dag segir næsta víst að ef björninn hafi verið á svæðinu hefði sést til hans úr þyrlunni.

Á miðvikudaginn taldi fólk sig sjá til hvítabjarnarins á sundi, þyrlan hefur farið um svæðið síðan og leitað en ekki haft erindi sem erfiði.
Hilmar Þór Hilmarsson, varðstjóri lögreglunnar á Blönduósi segir að á morgun verði metið að nýju hvort þyrlan verður kölluð til leitar. Engin skipulögð leit sé á jörðu niðri.

„Eina formlega leitin sem er er úr lofti með þyrlunni. Það er ekki hægt að leita þetta öðruvísi. Við viljum bara að fólk verði á varðbergi og láti okkur vita ef það sér eitthvað einkennlegt og við viljum eftir sem áður að fólk sé ekki að raska sínum plönum,” saði Hilmar.

Henning Þór Aðalmundsson er stýri- og sigmaður í áhöfn þyrlunnar en hún fór aðallega um Heggstaðanes og Vatnsnes í dag og leitaði vandlega frá fjalli niður í fjöru. Í gær var farið yfir Húnaflóann allan, úti á sjó og meðfram strandlengjunni.

„Það er ekkert 100 prósent, en við teljum að við höfum leitað það vel að við hefðum rekist á hann sé hann þarna. Þetta eru mikil flökkudýr. Stoppa sjaldnast við á sama stað lengi og eru yfirleitt bara á flandri og ef hann hefur verið á sundi gæti hann verið kominn til sjávar eitthvert en það hvítnar aðeins á báru núna en því er það aðeins erfiðara að fylgjast með þar sem það er hvítt á sjónum,” sagði Henning Þór Aðalmundsson.

Heimild: Rúv.is