Áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll hefst að nýju á sunnudag en ekki hefur verið flogið þangað í 12 ár. Það er flugfélagið Ernir sem mun bjóða upp á ferðir þangað fjóra daga vikunnar.
Flugfélag Íslands flaug á Húsavíkurflugvöll í Aðaldal fram til 1998 en eftir það hélt Mýflug upp áætlunarflugi þangað fram til ársins 2000. Tólf ár eru því síðan áætlunarflug um völlinn lagðist af en á sunnudag verður breyting þar á þegar flugfélagið Ernir flýgur fyrstu áætlunarferð sína þangað, en félagið mun í sumar bjóða upp á sjö ferðir á viku, fjóra daga vikunnar, milli Reykjavíkur og Húsavíkur. Ásgeir Örn Þorsteinsson er sölu- og markaðsstjóri flugfélagsins.
„Við erum búnir að vera að skoða möguleikann með Húsavík í töluverðan tíma, nokkur ár og við sáum einfaldlega tækifæri í stöðunni núna. Þannig að það eru bæði heimamenn og ferðaiðnaðurinn sem kveikti í okkur og fékk okkur til þess að starta flugi á Húsavík.”
Bókanir hafa farið vel af stað að sögn Ásgeirs og viðtökur ferðageirans hafa ekki síst verið góðar.
„Þetta er í boði fram á haustið og munum við taka ákvörðun vonandi bara um mitt sumar hvort að áframhald verði en það veltur á heimamönnum að mestu leyti og fyrirtækjum að nýta flugið til þess að hægt sé að halda þessu gangandi yfir veturinn.”
Heimild: Rúv.is