Auglýsing um hreindýraveiðar árið 2012

Heimilt er að veiða allt að 1009 hreindýr árið 2012. Þessi heimild er veitt með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum sem kalli á endurskoðun fjölda veiðiheimilda. Veiðitími er frá 1. ágúst til og með 15. september. Umhverfisstofnun getur, sbr. reglugerð nr. 636/2010, heimilað veiðar á törfum frá og með 15. júlí og lengt veiðitíma kúa til og með 20. september. Óheimilt er að veiða kálfa. Veturgamlir tarfar eru alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tveggja vetra og eldri tarfa.
Veiðiheimildir árið 2012 skiptast sem hér segir eftir veiðisvæðum og kyni dýra:

             Kýr Tarfar Alls

  • Svæði 1 34 77 111
  • Svæði 2 257 92 349
  • Svæði 3 30 45 75
  • Svæði 4 10 21 31
  • Svæði 5 35 28 63
  • Svæði 6 30 46 76
  • Svæði 7 120 67 187
  • Svæði 8 47 25 72
  • Svæði 9 25 20 45
  • Samtals 588 421 1009

Umhverfisstofnun auglýsir og sér um sölu allra veiðiheimilda.

Veiðisvæðin skiptast þannig eftir sveitarfélögum:

Svæði 1 Vopnafjarðarhreppur og hluti Fljótsdalshéraðs, þ.e. Jökuldalur norðan Jökulsár á Brú og Jökulsárhlíð.
Svæði 2 Fljótsdalshreppur og hluti Fljótsdalshéraðs, áður Jökuldalur austan Jökulsár á Brú, Hróarstunga, Fell, Vellir vestan Grímsár og Skriðdalur vestan Grímsár, Geitdalsár,
Hrútár og línu úr Hrútárpollum í Hornbrynju.
Svæði 3 Borgarfjarðarhreppur og Fljótsdalshérað að hluta, þ.e. Hjaltastaðaþinghá, Eiðaþinghá
Svæði 4 Seyðisfjörður, Fljótsdalshérað að hlut, þ.e. Vellir austan Grímsár, og Fjarðabyggð að hluta, þ.e. Mjóifjörður.
Svæði 5 Fjarðabyggð að hluta, þ.e. Eskifjörður, Norðfjörður og Reyðarfjörður.
Svæði 6 Breiðdalshreppur, hluti Fjarðarbyggðar, þ.e. Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður, hluti Fljótsdalshrepps, þ.e. Skriðdalur austan Grímsár, Geitdalsár, Hrútár og línu úr
Hrútárpollum í Hornbrynju.
Svæði 7 Djúpavogshreppur, áður Beruneshreppur, Búlandshreppur og Geithellnahreppur.
Svæði 8 Hornafjörður,– áður Bæjarhreppur og Nesjahreppur (Lón og Nes).
Svæði 9 Hornafjörður, áður Mýrahreppur og Borgarhafnarhreppur (Mýrar og Suðursveit).

Þrátt fyrir skiptingu veiðiheimilda eftir veiðisvæðum getur Umhverfisstofnun, í samráði við
Náttúrustofu Austurlands, fært veiðiheimildir milli samliggjandi veiðisvæða þyki sýnt að hjarðir hafi fært sig milli þessara veiðisvæða eða aðrar sérstakar ástæður gefa tilefni til.
Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. reglugerðar um stjórn hreindýraveiða, nr. 486/2003 er
Umhverfisstofnun heimilt að gera ráðstafanir til þess að veiði dreifist sem jafnast á veiðitímann á hverju svæði.

Veiðiheimildir þessar eru auglýstar í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 486/2003 um stjórn hreindýraveiða með áorðnum breytingum, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, sbr. 14. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum með áorðnum breytingum.
Umhverfisráðuneytinu, 25. janúar 2012.

Auglýsingin beint frá Umhverfisráðuneytinu er hér.