OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Hólahátíð verður haldin helgina 12.-13. ágúst með fjölbreyttri dagskrá. Pílagrímaferðir verða á laugardeginum. Farið verður frá Atlastöðum í Svarfaðardal yfir Heljardalsheiði til Hóla og mun sr. Þorgrímur Daníelsson leiða þá göngu. Lagt verður af stað frá Atlastöðum kl. 10.00, en boðið verður upp á bílferð frá Hólum kl. 8.00 um morguninn. Nánari upplýsingar og skráning í síma 893 1804 fyrir fimmtudaginn 10. ágúst.

Einnig verður gengið upp í Gvendarskál og verður lagt af stað frá skólahúsinu á Hólum kl. 13.00. Karl Lúðvíksson leiðir þá göngu. Klukkan 16:00 á laugardeginum verður samkoma í Hóladómkirkju til að fagna endurútgáfu þriggja íslenskra sálmabóka frá 16. öld. Þetta eru handbók og sálmabók Marteins biskups Einarssonar, upphaflega prentuð árið 1555; sálmabók Gísla biskups Jónssonar árið 1558 en þeir voru báðir biskupar í Skálholti; og loks sálmabók Guðbrands biskups Þorlákssonar sem kom út á Hólum í Hjaltadal árið 1589.

Sálmabækur Marteins og Gísla innihalda fáeina tugi sálma en í sálmabók Guðbrands eru 343 sálmar. Við 106 sálma í þeirri bók eru nótur við sálmana og er þetta fyrsta bók sem var prentuð á Íslandi og inniheldur nótur, er því merkur áfangi í íslenskri tónlistarsögu.Þessar þrjár bækur eru nú gefnar út í tveimur bindum undir sameiginlega heitinu: Sálmabækur 16. aldar. Textinn er með nútímastafsetningu. Í formála er gerð grein fyrir uppruna sálma og þróun þeirra á Íslandi, svo og fylgja ítarlegar skýringar. Einnig hafa nóturnar verið aðlagaðar þeirri nótnaskrift sem nú tíðkast.

Samanlagt eru bækurnar 600 blaðsíður.

Dagskráin hefst kl. 16 síðdegis og verður með þessum hætti:Jón Torfason: Um útgáfuna. Karl Sigurbjörnsson: Sálmar og sálmabækur (Bragi Halldórsson flytur). Guðrún Laufey Guðmundsdóttir: Lögin í sálmabókinni 1589. Kristján Eiríksson: Nýir bragarhættir. Elín Gunnlaugsdóttir: Nótnasetning. Milli atriða verða söngatriði þar sem Gunnlaugur Bjarnason baríton syngur og í lokin umræður ef tími vinnst til. Kl. 18.00 á laugardag verður helgistund í kirkjunni.

Tekið á móti pílagrímum og skírnarinnar minnst og kl. 19.00 er kvöldverður á Kaffi Hólar. Kl. 10 á sunnudeginum verður morgunsöngur í Hóladómkirkju. Kl. 14 verður svo hátíðarmessa í kirkjunni. Þar prédikar sr. Kristján Valur Ingólfsson fyrrverandi víglubiskup í Skálholti og þau sem þjóna eru: Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands, Gísli Gunnarsson, vígslubiskup á Hólum, Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti og sr. Halla Rut Stefánsdóttir. Skagfirski Kammerkórinn og kirkjukór Hóladómkirkju syngja undir stjórn Helgu Rósar Indriðadóttur. Organisti er Jóhann Bjarnason. Veitingar verða eftir messu, en kl. 16.10 hefst hátíðardagskrá í kirkjunni þar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri flytur Hólaræðuna og skagfirski kammerkórinn syngur undir stjórn Helgu Rósar.

Velkomin heim að Hólum.