17. júní hátíðarhöld verða haldin í Ólafsfirði og á Siglufirði og verða fjölbreyttir viðburðir fyrir alla. PDF útgáfu af dagskránni má sjá á vef Fjallabyggðar.
Á Siglufirði verður hátíðarathöfn við minnisvarða sr. Bjarna Þorsteinssonar við Siglufjarðarkirkju. Að henni lokinni ætlum við að ganga að Þjóðlagasetri Sr. Bjarna þar sem boðið verður upp á kaffi og konfekt. Hið árlega Kaffihlaðborð Blakfélags Fjallabyggðar verður í Einingu-Iðju á Siglufirði og í ár mun UMF Glói endurvekja 17. júní hlaupið á Siglufirði fyrir krakka á fædd 2006-2013.
Að vanda verður sýning í Kompunni í Alþýðuhúsinu en það er hún Kristín Gunnlaugsdóttir sem sýnir verkin sín og svo verður opið bæði í Ljóðasetri Íslands, Ljósmyndasögusafninu Saga-Fotografica og á Þjóðlagasetrinu.
Við Menningarhúsið Tjarnarborg í Ólafsfirði verður glæsileg hátíðardagskrá þar sem í boði verða m.a. leiktæki, hoppukastalar, geimsnerill, stærsta vatnsrennibraut landsins verður opin (Skíðastökkpallurinn) og margt fleira fyrir alla fjölskylduna.
Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að mæta og fagna þessari hátíðarstund saman en í ár heldur Lýðveldið Ísland upp á 75 ára afmæli. Af því tilefni verður gestum boðið upp á 4. metra Lýðveldisköku við Menningarhúsið Tjarnarborg og við Aðalbakarí á Siglufirði í boði Landssambands bakarameistara og forsætisráðuneytisins.