Háskólalestin verður í Fjallabyggð dagana 17. og 18. maí nk. og mun þá bjóða grunnskólabörnum upp á námskeið í samstarfi við Grunnskóla Fjallabyggðar föstudaginn 17. maí þar sem nemendum gefst kostur á að sjá og kynnast tækjum og vísindum sem ekki eru í boði í Fjallabyggð. Vísindaveisla, opin öllum, verður svo laugardaginn 18. maí.

Heimsókn Háskólalestarinnar er skólum og nemendum að kostnaðarlausu – og Vísindaveislan er sömuleiðis öllum opin, endurgjaldslaust.

Fjallabyggð styrkir heimsóknina með afnot af Menningarhúsinu Tjarnarborg.

Undanfarin ár hefur Háskólalestin ferðast um landið við miklar vinsældir. Í lestinni er lögð áhersla á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Viðtökur hafa verið með eindæmum góðar og hafa landsmenn á öllum aldri fjölmennt á viðburði Háskólalestarinnar.

Í Háskólalestinni eru valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir grunnskólanemendur og jafnvel leikskólabörn og framhaldskólanemendur. Að auki er slegið upp litríkum vísindaveislum fyrir alla heimamenn með stjörnuveri, sýnitilraunum, mælingum og pælingum, að ógleymdu Sprengjugenginu landsfræga.