Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar í umboði sveitarstjórnar, hefur samþykkt að fara í hagræðingaraðgerðir og stjórnskipulagsbreytingar. Tillögurnar hafa verið kynntar öðrum sveitarstjórnarfulltrúum sem allir hafi lýst sig fylgjandi breytingunum.
Bæði er um almennar aðgerðir að ræða sem og breytingar á skipuriti sveitarfélagsins. Einn liður í þessum aðgerðum er að ná niður launakostnaði og er eitt af markmiðunum að hann verði orðinn um 57% af heildartekjum árið 2014 en er í dag um 65,9%, sem er óviðunandi.
Helstu breytingar eru þær að sviðum verður fækkað úr sjö í þrjú, en þau verða fjármála- og stjórnsýslusvið, veitu- og framkvæmdarsvið og fjölskyldusvið. Rekstrarformi Skagafjarðarveitna ehf verður breytt og verður það með sama hætti og aðrar B-hluta stofnanir sveitarfélagsins.
Sameining verður á Skagafjarðarveitum, þjónustumiðstöð (áhaldahúsi) og eignasjóði. Einnig mun markaðs-og þróunarsvið verða sameinað fjármála-og stjórnsýslusviði. Atvinnu- og ferðamálanefnd og menningar-og kynningarnefnd verða sameinaðar í eina nefnd.
Nýtt stjórnskipulag tekur gildi 1.september n.k. Hluti þessara breytinga kalla á breytingar á samþykktum sveitarfélagsins í samræmi við lög. Stefnt er að kynningafundi fyrir íbúa sveitarfélagsins í byrjun september n.k. þegar sem flestir verða komnir úr sumarleyfum.