Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Einherji frá Vopnafirði mættust í kvöld í 3. deild karla í knattspyrnu. Liðin hafa mæst í 3. deildinni undanfarin ár og alltaf verið miklir baráttu leikir.  Á síðasta tímabili þá vann KF sinn heimaleik og Einherji einnig á sínum heimavelli. Liðin mættust einnig í deildarbikarnum í fyrra og vann þá KF einnig sannfærandi sigur. Árið 2017 þá vann Einherji báðar viðureignir liðanna í deildinni. Það var því búist við hörku leik í kvöld.

Þjálfari KF gerði enga breytingu á byrjunarliðinu frá stórsigrinum gegn Reyni Sandgerði í síðasta leik. KF byrjaði fyrri hálfleikinn vel og skoruðu gott mark í upphafi leiks þegar Jordan Damachoua skoraði með góðu skoti inn í teig og kom KF í 1-0. KF fékk fjölmörg tækifæri í fyrri hálfleik og hefðu á góðum degi átt að skora 2-3 mörk til viðbótar, en staðan var aðeins 1-0 í hálfleik. Dómarinn var einnig í stuði í þessum leik og gaf 10 gul spjöld og eitt rautt og naut þess að vera í sviðsljósinu. Vitor og Ljubomir fengu báðir gult spjald í fyrri hálfleik og voru þeir því á hættu svæðinu í síðari hálfleik.

Engin breyting var gerð á liðunum í hálfleik, en dómarinn hélt áfram að veifa gula spjaldinu og næstur í bókina hjá KF var Jakob Auðun á 64. mínútu og aftur Vitor á 76. mínútu og þar með rautt spjald og lék KF einum leikmanni færri það sem eftir lifði leiks. Leikmenn KF voru ósáttir við þennan dóm og töldu Vitor ekki hafa brotið af sér. Skömmu síðar fengu gestirnir aukaspyrnu sem sem endaði á kollinum á fyrirliðanum Bjarti Aðalbjörnssyni, og jöfnuðu þeir leikinn í 1-1 þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum auk uppbótartíma. Þjálfari KF brást strax við rauða spjaldinu og skipti Ljubomir útaf fyrir Stefán Bjarka. Fimm mínútum eftir markið kom svo önnur skipting þegar Halldór Logi kom inná fyrir Val Reykjalín. KF náði sér í tvö gul spjöld til viðbótar á síðustu mínútum leiksins.

KF náði ekki að skora annað mark í leiknum og lauk honum með 1-1 jafntefli og geta leikmenn KF verið svekktir að hafa ekki náð að nýta færin betur í fyrri hálfleik. KF datt niður í fjórða sæti deildarinnar en lítið þarf að gerast svo að liðið komist í 2. sætið því fá stig eru á milli toppliðanna.

Næsti leikur verður svo sunnudaginn 14. júlí kl. 16:00 gegn Augnabliki á Ólafsfjarðarvelli.