Fyrirtæki í Eyjafirði hafa í sameiningu hrundið af stað átaki til tveggja ára, með það að markmiði að hasla sér völl á Grænlandi. Þar eru fyrirsjáanleg í náinni framtíð mikil umsvif sem Eyfirðingar vilja taka þátt í.

Á kynningarfundi á Akureyri kom fram að fyrirsjáanleg eru þrjátíu stór verkefni á sviði olíu- og námavinnslu og uppbyggingu innviða á Grænlandi. Fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu hafa nú tekið höndum saman og hyggjast á næstu tveimur árum markaðssetja þjónustu sína á meðal stórfyrirtækja sem þarna verða að störfum.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segir ljóst að það vanti mikið af innviðum, tækniþekkingu og fagþekkingu á ýmsum sviðum á Grænlandi. „Við erum nærtækasti kostur hvað varðar flutninga, heilbrigðisþjónustu og fleira, enda kannski með áratuga reynslu hér á þessu svæði við að þjónusta Grænland.“

Þorvaldur viðurkennir að seint sé af stað farið, auk þess sem fámennt íslenskt samfélag sé örsmátt í alþjóðlegri samkeppni. Því sé mikil vinna framundan næstu 24 mánuði ef Eyfirðingar ætli sér að vera með í þessari uppbyggingu. En mikil samstaða sé um verkefnið og það hjálpi til.

„Þegar mörg ólík fyrirtæki úr mismunandi greinum geta komið saman, tekið höndum saman, lagst sameiginlega á árarnar í stað þess að vera hver á minni báti að róa í sína átt.“

Frétt frá Rúv.is