Fréttatilkynning frá lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra vegna skotárásar á Blönduósi hinn 21. ágúst 2022.
Um kl. 5:30 í morgun, sunnudag, barst lögreglunni á Norðurlandi vestra tilkynning um að skotvopni hefði verið beitt gegn tveimur einstaklingum í heimahúsi á Blönduósi og að um alvarlegt tilvik væri að ræða. Lögregla vopnaðist áður en farið var á vettvang, auk þess sem annað viðbragð innan lögreglu var virkjað, þar á meðal vopnuð sérsveit.
Í ljós kom að skotvopni hafði verið beitt gegn tveimur einstaklingum, þar sem einn var látinn og annar særður. Aukinheldur fannst meintur gerandi skotárásarinnar einnig látinn á vettvangi. Í framhaldi að hlúð var að hinum slasaða og vettvangur tryggður var lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra gert viðvart um málið en rannsókn sakamálsins er í höndum hans samkvæmt reglugerð nr. 660/2017 um stjórn lögreglurannsókna o.fl. Annað viðbragð var einnig virkjað, þar á meðal áfallateymi Rauða krossinn í umdæminu.
Hinum slasaða var komið með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Á þessu stigi er ekki vitað um líðan hans. Tekið skal fram að ekki kom til þess að lögreglan þyrfti að grípa til vopna vegna atviksins. Tveir eru í haldi lögreglu vegna málsins.
Að svo stöddu mun lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra ekki tjá sig um málið sem er á viðkvæmu stigi.
Gert er ráð fyrir að embættið muni senda frá sér aðra fréttatilkynningu kl. 18:00 í dag.