Framkvæmdum og endurbótum er lokið við skólalóðir Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði og á Siglufirði og eru þær hinar glæsilegustu. Frá því 2017 hafa staðið yfir viðamiklar endurbætur á skólalóðum Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði og á Siglufirði. Heildarkostnaður við endurgerð lóðanna er áætlaður ríflega 200 milljónir króna. Vinsælustu viðbæturnar eru klárlega körfuboltavellirnir og hreystibrautin í Ólafsfirði. Þá hefur gervigrasvöllurinn nýst Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar yfir vetrarmánuðina.
Verkin voru unnin í þremur áföngum og hófust framkvæmdir við 1. áfanga skólalóðarinnar við Norðurgötu á Siglufirði sumarið 2017. Annar áfangi var unnin 2018 og sá þriðji nú í sumar. Vinna hófst við 1. áfanga á skólalóðinni í Ólafsfirði sumarið 2018 og voru áfangar tvö og þrjú kláraðir í sumar.
Á skólalóðunum hefur meðal annars verið komið fyrir hjólabogum, leiktækjum s.s. trampólíni, vegasalti, rólum, klifur- og jafnvægistækjum og aparólum. Einnig eru nýir glæsilegir körfuboltavellir á lóðunum auk hreystibrautar sem sett var á skólalóðina í Ólafsfriði. Fallvarnarbúnaður var settur undir aparólur og Tartan efni á körfuboltavellina sem dregur úr hljóðmengun og slysahættu.
Skólalóðirnar eru öllum aðgengilegar utan hefðbundins skólatíma og nýtast vel fyrir íbúa og ferðamenn í Fjallabyggð.
Heimild: Fjallabyggð.is.

