Heimamenn á Siglufirði stóðu fyrir nýju Síldarævintýri um verslunarmannahelgina. Þriggja manna stjórn byrjaði að skipuleggja hátíðina í vor og fengu fyrirtæki og einstaklinga til að styrkja ýmsa viðburði á Síldarævintýrinu. Hátíðin var með breyttu sniði og hafði ekki verið haldin undanfarin tvö ár, en um marga litla viðburði var að ræða og ekki stórt svið á Ráðhústorginu. Fram til þessa hafði Fjallabyggð haldið hátíðina og lagt til fé, en sveitarfélagið styrkti ekki nýju hátíðina í ár með fjárstyrk og var umsókn um styrk hafnað án skýringa, sveitarfélagið lagið þó til ýmsan búnað sem var notaður við hátíðina. Heimamenn söfnuðu því fyrir hátíðinni svo hún yrði sem glæsilegust. Dagskrá hátíðarinnar var svo komin viku fyrir hátíð og var send til allra íbúa Fjallabyggðar. Eins og með allar hátíðir þá var erfitt að áætla hversu margir myndu koma á hátíðinna, en það var mál manna að um 4000 manns hefðu heimsótt hátíðina í ár.

Fjölmargir viðburðir voru fyrir börnin á þessari hátíð sem var skipulögð fyrir fjölskyldur. Heimamenn skiptu hverfunum í litahverfi og héldu götugrill á fimmtudeginum. Hoppuskastalar voru á svæðinu, hægt var að fara á hestbak, sögustund í Ljóðasetrinu, hlaup fyrir 6-13 ára og fjölmargir íþrótta- og menningarviðburðir voru þessa helgina sem komu í bland við góða dagskrá. Nokkur lítil svið voru í Aðalgötunni þar sem heimamenn héldu uppi tónlistardagskrá. Veitingahúsin í miðbænum nutu góðs af fjölmenninu og var þétt setið á öllum veitingahúsum um helgina.  Tjaldsvæðin á Siglufirði voru full af fólki, húsbílum, hjólhýsum og tjöldum. Skemmtiferðaskip komu til Siglufjarðar yfir verslunarmannahelgina og settu svip sinn á bæinn.

Bryggjusöngur var haldinn á laugardagskvöld og var þar saman komið mikið fjölmenni og gríðarleg stemning og heyra mátti sönginn upp í efri byggð Siglufjarðar.

Umferðin gekk vel til og frá Fjallabyggðar fyrir og eftir hátíðina og þurft enga aðkomu lögreglu eins og stundum gerist þegar stórar hátíðir eru haldnar í Fjallabyggð.

Telja má að þessi hátíð sé aftur komin til að vera og að stjórnendur bjóði sig flestir aftur fram til að leiða hátíðina og skipuleggja. Stjórnendur hafa nú fengið dýrmæta reynslu og geta byggt á henni á næsta Síldarævintýri.