Í liðinni viku var formlega hleypt af stað á Sauðárkróki  söfnun til að styðja við bakið á bændum á þeim svæðum sem urðu fyrir áföllum í óveðrinu, sem gekk yfir Norðurland snemma í september. Þar kom fram að Kaupfélag Skagfirðinga gæfi 5 milljónir króna í söfnunina. Þá gefur Landsbankinn einnig 5 milljónir króna, eina milljón fyrir hvert útibú bankans á Norðurlandi.  Afhendingin framlaganna fór fram í tengslum við Bændadaga KS sem hófust í gær og standa yfir í allan dag.

Sérstök verkefnisstjórn hefur verið skipuð til að hafa umsjón með söfnuninni og móta reglur um hana. Verkefnisstjórnina skipa þau; Guðni Ágústsson fv. landbúnaðarráðherra formaður, Dagbjört Bjarnadóttir oddviti Skútustaðahrepps, Jón Aðalsteinn Baldvinsson fv. vígslubiskup á Hólum, Friðrik Friðriksson fv. sparisjóðsstjóri á Dalvík og Þórarinn Ingi Pétursson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.

Þeir sem vilja styðja við bakið á málefninu geta lagt framlög inn á reikning nr. 0161-15-380370, kt. 630885-1409, í Landsbankanum á Sauðárkróki.

Heimild: www.bbl.is