Fyrsta skólfustungan að púttvelli Félags eldri borgara á Siglufirði var gerð 28. ágúst síðastliðinn. Málið hefur tekið nokkur ár að koma í gegnum stjórnsýslukerfið hjá Fjallabyggð en er nú loksins komið að tímamótum í málinu. Félag eldri borgara á Siglufirði óskaði fyrst eftir aðstöðu fyrir púttvöll á Siglufirði árið 2016 en var þeirri beiðni hafnað hjá Fjallabyggð, voru eldri borgarar þá hvattir til að nýta sér þá aðstöðu sem var þegar fyrir í Fjallabyggð.
Málið var aftur tekið fyrir hjá Fjallabyggð árið 2017 og nú komu jákvæð svör og vildi Fjallabyggð útvega lóðina á Hvanneyrarbraut til móts við hús 30-36 og að runnar yrðu gróðursettir til að auka skjól á svæðinu. Málið endaði hjá skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar sem samþykkti umsóknina um lóðina með þremur atkvæðum gegn tveimur, með þeim fyrirvara að skoðað yrði að staðsetning á púttvellinum miðaðist við að hægt yrði að nýta byggingarlóðir við Hlíðarveg og Hvanneyrarbraut austan og vestanmegin við púttvöllinn.
Í lok árs 2017 ákvað Félag eldri borga á Siglufirði að afþakka þessa lóð við Hvanneyrarbraut. Aftur sótti Félag eldri borgara á Siglufirði um lóð hjá Fjallabyggð árið 2018 og var sú umsókn samþykkt hjá Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar með með þremur atkvæðum (Konráð K. Baldvinsson og Ingibjörg G. Jónsdóttir og Helgi Jóhannsson) gegn tveimur (Brynja Hafsteinsdóttir og Hjördís H. Hjörleifsdóttir). Enn var fyrirvari að byggingalóðir í kring myndu nýtast.
Félag eldri borga á Siglufirði fékk úthlutaðan styrk frá Samfélags- og menningarsjóði Siglufjarðar að upphæð 2.340.000 árið 2017 og var framlengdur til ársins 2019 þar sem tafir urðu á málinu.
Eins og áður sagði þá hefur Félag eldri borgara á Siglufirði fengið úthlutaða lóð við Hvanneyrarbrautina undir púttvöll sem á eftir að nýtast vel í þeirra starfi.
Vefurinn greindi fyrst frá þessu málið árið 2017.