Fréttatilkynning frá Fiskideginum mikla.

Fiskidagurinn mikli verður 19 ára eitt ár í viðbót. Eins og margir vita þá er Fiskidagurinn mikli 20 ára í ár og undirbúningur var hafin fyrir afmæli fjölskylduhátíðarinnar sem vera átti 7.-9. ágúst 2020.

Í ljósi aðstæðna hefur stjórn Fiskidagsins mikla ákveðið að fresta afmælishátíðinni um eitt ár. Saman förum við í gegnum þetta verkefni sem okkur hefur verið rétt upp í hendurnar, verum áfram einbeitt og hlýðum þríeykinu sem vinnur ásamt sínu fólki afar gott starf. Við skulum muna að tapa aldrei gleðinni. Við komum sterk inn að ári og þá knúsumst við og njótum samvista við fólkið okkar og gesti. Veriði velkomin á 20 ára afmæli Fiskidagins mikla 6 .– 8. ágúst 2021. Styrktaraðilar okkar sem eru vel á annað hundrað fá á næstu dögum bréf frá okkur þar sem við þökkum fyrir frábært samstarf liðinna ára og óskum eftir því að þeir yfirgefi okkur ekki og komi ferskir að vanda með okkur inn í nýtt afmælisár.

Með baráttukveðjum frá stjórn Fiskidagsins mikla í Dalvíkurbyggð.