Flugfélagið Ernir hefur ákveðið að halda flugi til Húsavíkur áfram allt árið um kring en upphaflega var áætlunarflugið sem hófst í vor tilraunaverkefni og átti að standa út september.

Flugfélagið segir viðtökur hafa verið mjög góðar og íbúar svæðisins, fyrirtæki og stofnanir hafi sýnt mikinn áhuga og nýtt flugið mjög vel. Einnig megi ætla að töluverður fjöldi erlendra ferðamanna heimsæki Húsavík og Mývatnssvæðið með þessari nýju tengingu beint á Húsavíkurflugvöll.

Fyrst um sinn verður flogið sjö sinnum á dag fjóra daga vikunnar líkt og verið hefur síðustu mánuði. Einnig verður skoðaður sá möguleiki að bæta við flugdögum og auka tíðnina ef eftirspurn eykst mikið.

Heimild: Akureyrivikublad.is