Mikið tjón varð þegar eldur kom upp í hesthúsi á bænum Hellulandi í Skagafirði í nótt. Slökkviliðið hafði lokið aðgerðum á staðnum þegar eldurinn blossaði upp aftur og olli enn meira tjóni.

Slökkviliðinu á Sauðárkróki barst tilkynning um eldinn rétt fyrir klukkan eitt í nótt. Húsið er nýlegt og hefur verið í byggingu síðastliðin þrjú ár. Engir hestar voru í húsinu en þarna hafa hestar verið meira og minna í allt haust.

Vernharð Guðnason, slökkviliðsstjóri á Sauðárkróki, sagði í viðtali við Rúv.is að töluverður eldur hafi verið í húsinu þegar liðið kom á vettvang, „en bóndinn gerði sitt til að hemja eldinn þangað til við komum. Það gekk ágætlega að ráða niðurlögum eldsins þá og við töldum okkur vera búna að slökkva, en því miður tók eldurinn sig upp aftur síðar um nóttina og við urðum að fara aftur. Þá varð tjónið öllu stærra. Í þessu tilfelli var það metið sem svo að þetta væri allt kulnað, en því miður þá hefur trúlega leynst glóð inni í vegg eða eitthvað svoleiðis sem tók sig upp aftur með þessum afleiðingum.“

Húsið er mikið skemmt.Burðarvirki þess brunnið og mikið af reiðtygjum og alls kyns áhöldum ónýtt. Andrés Geir Magnússon, eigandi hússins, segir tjónið nema milljónum, en hann sé ótryggður fyrir tjóni sem þessu. Eldsupptök hafa ekki verið staðfest. Ekkert rafmagn er á húsinu. „En við vitum líka að það var hálmur í bing og sag. Spurning hvort hafi hitnað í því, en það eru getgátur enn sem komið er,“ segir Vernharð Guðnason slökkviliðsstjóri.

Heimild: rúv.is