Dalvík/Reynir og Tindastóll frá Sauðárkróki mættust á Dalvíkurvelli í kvöld í 15. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla. Leikurinn fór fram í hinni einu og sönnu fiskidagsviku og því mikill stemningsleikur sem boðið var uppá. Búist var við hörkuleik þótt að liðið séu að berjast á sitthvorum endanum í deildinni, þá er alltaf hart barist þegar nágrannalið mætast.

Stólarnir höfðu aðeins unnið einn leik af 14 áður en kom að þessum leik svo þeir voru mættir til að berjast til síðasta dropa.  Liðin mættust í upphafi móts og þá vann D/R 1-2 á útivelli.

Í fyrri hálfleik þá veifaði dómari leiksins gula spjaldinu fjórum sinnum.  Skömmu fyrir hálfleik þá tóku gestirnir forystu þegar Aðalgeir Axelsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Tindastól. Stólarnir leiddu því 0-1 í hálfleik.

Heimamenn komu ákveðnir til leiks og uppskáru vítaspyrnu á 57. mínútu og úr henni skoraði Sveinn Margeir Hauksson, hans fyrsta mark í deild og bikar fyrir Dalvík í 31 leik. Staðan orðin 1-1 og rúmur hálftími eftir. Þjálfari Dalvíkur gerði tvær skiptingar skömmu eftir markið og kom Jóhann Örn og Viktor Daði inná fyrir Núma Kára og Pálma Heiðmann.

Halldór Broddi varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 72. mínútu fyrir Tindastól og kom D/R í 2-1. Honum var skipt af leikvelli á sömu mínútu og gerði þjálfari Tindastóls tvöfalda skiptingu, en Arnar Ólafsson fór einnig út af og inná komu Alvaro og Ísak Sigurjónsson. Dalvík nýtti einnig tækifærið og sendi Alexander Inga inná fyrir Gunnlaug Bjarnar.

Dalvík/Reynir komst í 3-1 á 79. mínútu með marki frá Þresti Jónassyni, hans annað mark í sumar og D/R komust í þægilega stöðu þegar skammt var eftir.

Aðeins þremur mínútum síðar eða á 82. mínútu fengu gestirnir dæmda vítaspyrnu, og úr henni skoraði Konráð Sigurðsson og minnkaði hann muninn í 3-2, þegar 8 mínútur voru eftir auk uppbótartíma.  Dómarinn hélt áfram að veifa gula spjaldinu og náði fjórum til viðbótar á síðustu 15 mínútum leiksins. Dalvík hélt út og sigruðu 3-2 í þessum fjöruga leik.

Dalvík/Reynir eru núna í 3. sæti deildarinnar með 24 stig en liðin fyrir neðan eiga einn leik til góða og getur því liðið færst niður þegar umferðinni lýkur.