Um klukkan fimmleytið í dag voru þrír einstaklingar í vandræðum í sjónum við Ólafsfjörð, um 200 metrum frá landi. Einstaklingarnir þrír voru allir á brimbrettum og rétt sást í kollinn á þeim í sjónum. Mikill öldugangur var á vettvangi og mikið útsog svo að þremenningarnir áttu erfitt með að komast að landi. Þeir náðu þó að sameinast og koma sér á eitt brimbretti.

Allt tiltækt björgunarlið var kallað út en erfiðlega gekk að komast að fólkinu i sjónum. Þremenningarnir náðu að lokum að komast úr útsoginu og koma sér í land. Þeim varð ekki meint af. Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi fyrst frá þessu.