Bíll valt á Þverárfjalli í gærkvöld og á svipuðum tíma eða um kl. 21.30 valt bíll á Holtavörðuheiði. Bæði óhöppin tengjast slæmri færð á svæðinu en enginn slasaðist. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Blönduósi valt bíll á Holtavörðuheiði um kl. 21.30. Þrennt var í bílnum og slasaðist enginn en bíllinn sem var á norðurleið, er nokkuð skemmdur og þurfti að draga hann af staðnum með dráttarbíl. Mikil hálka var á heiðinni. Lögreglan á Sauðárkróki segir að par sem var í bílnum er valt á Þverárfjalli hafi verið flutt á sjúkrahúsið á Sauðárkróki til skoðunar og síðan sent heim. Þau hafi sloppið við meiðsl. Vond færð var efst á Þverárfjalli og lenti bíll parsins í skafli á miðjum vegi, ökumaður missti stjórn á honum með þeim afleiðingum að hann valt og endaði á toppnum.