Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti til Grundarfjarðar í dag og lék við UMFG í Benecta-deildinni í blaki. Liðin mættust á Siglufirði fyrr í vetur og vann BF 3-1 sigur.

BF byrjaði vel og komst fljótlega í 4-8 og 8-14 og hafði liðið örugga forystu í hrinunni. UMFG tók leikhlé í stöðunni 10-19 enda staðan ekki góð fyrir liðið. BF kláraði hrinuna örugglega 12-25 og gat leyft sér að gera skiptingar á leikmönnum og dreifa álaginu en liðið mættu með 11 leikmenn í þennan leik.

BF hafði einnig góð tök á annarri hrinu og komst í 3-11 og 10-16. Grundfirðingar minnkuðu svo muninn og var staðan orðin 14-18 þegar BF tók leikhlé. BF gerði skiptingu og komst í 14-21 og kláruðu hrinuna af öryggi 16-25.

Þriðja hrinan var örlítið jafnari fyrstu mínúturnar en BF stelpurnar tóku fljótt völdin og komust í 4-9 og 7-18. UMFG tóku tvö leikhlé á þessum kafla en það skilaði engu í þeirra leik. BF vann hrinuna örugglega 14-25 og unnu þægilegan 0-3 útisigur í Grundarfirði.

BF er komið í 4. sæti eftir þennan frábæra sigur og hefur núna spilaði 11 leiki í deildinni en liðin fyrir ofan hafa sumhver spilað færri leiki. UMFG er neðst í deildinni og hafa aðeins unnið einn leik.

BF leikur gegn Aftureldingu-X í Mosfellsbæ á morgun kl. 13:00, og verður það síðasti leikur liðsins fyrir jólafrí.