Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék síðasta mótsleikinn í Benectadeildinni í dag gegn HK-B. Með sigri hefði HK getað tryggt sér 2. sætið en heimamenn voru ekkert með nein plön um annað en að klára leikinn.

Fyrsta hrina var æsispennandi í lokin, en það var BF sem byrjaði hrinuna af krafti og leiddu nánast alveg til enda. BF komst í 4-0 og 10-6 en HK jafnaði metin 12-12 og virtust alltaf koma til baka þegar BF náði góðu forskoti. BF komst í 18-14 og tóku þá gestirnir leikhlé. BF hélt áfram að halda góðu forskoti og allt leit út fyrir sigur í hrinunni í stöðunni  22-17 en HK minnkaði óðum muninn og í stöðunni 23-21 tóku heimamenn leikhlé. HK skoraði næsta stig, staðan 23-22 og BF tók annað leikhlé. Aftur skoraði HK og jöfnuðu 23-23, 24-24 og komust svo yfir í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 24-25. Hér var mikil spenna í leiknum og nú mátti ekkert klikka hjá heimamönnum. BF jafnaði 25-25 og komst yfir 26-25 og nú tóku gestirnir leikhlé. Heimamenn áttu síðasta stigið og unnu hrinuna 27-25 og voru komnir í 1-0 eftir mikla baráttu.

Í annari hrinu komst HK í 0-2 og var það í eina skiptið sem þeir komust yfir í hrinunni. Jafnræði var fyrstu mínúturnar en þegar leið á hrinuna var BF mun betra liðið og náði góðu forskoti. Jafnt var á tölunum 4-4 og 8-8 en þá náði BF upp góðu forskoti sem HK réð ekki við.  BF komst í 13-9 og 16-11 og tóku þá gestirnir leikhlé. BF hélt áfram að skora og var lítið um varnir hjá HK, staðan var 20-11 og 21-13. HK náði nú ágætis kafla og minnkaði muninn í 22-15 og 22-17. BF kláraði svo hrinuna 25-17 og voru komnir í 2-0.

BF menn voru svo seinir í gang í þriðju hrinu og HK sýndi klærnar. Þeir komust í 2-5 og nú tók BF strax leikhlé. Hlutirnir gengu vel hjá HK og þeir komust í 3-8 og 6-10 en nú vaknaði BF vélin til lífsins og stigin komu á færibandi. BF skoraði nú fimm stig í röð og komust yfir 11-10, en HK svaraði um hæl með fjórum stigum og komust í 11-14 og nú tóku heimamenn hlé til að undirbúa lokaorustuna. BF skoraði nú þrjú í röð og jöfnuðu 14-14 og komust í 20-17 og nú tóku gestirnir leikhlé.  HK minnkaði muninn í 22-19 en lengra náðu þeir ekki, BF skoraði síðustu þrjú stigin og unnu 25-19 og leikinn 3-0.

Frábær úrslit hjá BF sem enda mótið í 2. sæti og geta þeir verið sáttir og stoltir af árangrinum í vetur. BF vann 10 leiki af 14 og enda með 32 stig. Liðið fékk afhentar silfurmedalíur í lok leiks.