Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar keppti við UMFG í dag á Siglufirði í Benecta deildinni en liðið kemur frá Grundarfirði á Snæfellsnesi. Grundfirðingar léku í gær við Völsung á Húsavík þar sem þær töpuðu 3-0, en BF átti frí í gær og voru þær því ferskari fyrir þennan leik. UMFG kom með tíu stelpur í þennan leik og BF voru einnig með 10 stelpur á leikskýrslu og ætluðu að selja sig dýrt og sækja sigur.

BF byrjaði fyrstu hrinu frábærlega og komust í 6-0 og 10-3. BF hafði talsverða yfirburði og leiddu alla hrinuna og komust í 16-8 og 20-11. Lokatölur í fyrstu hrinu urðu 25-17 eftir góða spilamennsku hjá BF.

Önnur hrina var aðeins jafnari en BF komst í 4-1 en UMFG komst inn í leikinn fljótlega og komust yfir 4-6 en leikurinn var jafn eftir það og var staðan 10-10, 16-16 og í stöðunni 17-19 tók BF leikhlé. Gestirnir voru sterkari í lokin og unnu 21-25 og jöfnuðu 1-1.

Í þriðju hrinu voru liðin jöfn og skiptust á að leiða í hrinunni en BF liðið var svo sterkari á endasprettinum. BF komst í 3-0 en UMFG jafnaði 5-5 og aftur var jafnt 13-13. UFMG skoraði á þessum kafla fimm stig í röð og komst í góða stöðu, 13-16 og tók nú þjálfari BF leikhlé. BF spilaði gott blak og jöfnuðu 16-16 og tóku þá gestirnir leikhlé. UMFG komst í 18-20 en BF voru mun sterkari í lokin og allt gekk upp og skoruðu þær 7 stig í röð og kláruðu hrinuna örugglega 25-18 og voru komnar í 2-1.

BF stelpurnar voru mun sterkari í fjórðu hrinu og leiddu allan tímann og héldu öruggu forskoti. BF komst í 6-2 og tók þá UMFG leikhlé. BF hélt áfram að skora og komust í 13-5 og tóku gestirnir aftur leikhlé.  UMFG spilaði ágætan kafla á þessum tímapunkti og minnkuðu muninn í 15-12 og eigðu smá von. Þjálfari BF tók hér leikhlé og stappaði stálinu í stelpurnar sem kláruðu hrinuna örugglega 25-15 og var aldrei hætta á öðru en sigri. Frábær sigur í dag hjá BF 3-1 gegn UMFG.

BF hefur núna spilað 9 leiki í deildinni, unnið 4 og tapað 5 og eru með 13 stig og er stutt í toppbaráttuna með fleiri sigrum.

BF leikur næst við HK-B, laugardaginn 30. nóvember.