Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við lið Álftanes 2 í Benectadeildinni í blaki í dag á Siglufirði. Liðin eru bæði í neðri helmingi deildarinnar og því hvert stig dýrmætt. Lið Álftanes mætti með engan varamann og það átti eftir að setja mark sitt á leik þeirra í síðustu hrinum leiksins.

Gestirnir byrjuðu leikinn mun betur og unnu fyrstu hrinuna nokkuð örugglega 16-25.  Meira jafnræði var með liðunum í annari hrinu en þá byrjaði BF betur og komst 6-1 og tóku þá gestirnir strax leikhlé BF náði áfram góðu forskoti og komst í 16-9 og aftur tóku gestirnir leikhlé.  Gestirnir komu sterkar til baka og minnkuðu muninn jafnt og þétt og jöfnuðu leikinn í 18-18. BF komst yfir 22-19 en gestirnir skoruðu fimm stig í röð og voru sterkari í lok hrinunnar, staðan orðin 22-24 og mikil spenna. BF náði einu stigi til viðbótar en Álftanes vann 23-25 og voru komnar í 0-2.

Nú var að duga eða drepast fyrir BF stelpurnar í þriðju hrinunni. Jafnræði var með liðunum í upphafi hrinunar og náði hvorugu liðinu að ná upp forskoti.  Í stöðunni 12-13 er vendipunktur í leiknum þegar leikmaður Álftanes meiðist á kálfa, eða reif vöðva í kálfanum og tóku þær tvöfalt leikhlé á þessum tímapunkti. BF náði að leiða með 2-3 stigum eftir leikhléð og voru sterkara liðið út hrinuna.  Þær unnu svo hrinuna 25-20 og minnkuðu muninn í 1-2.

Í fjórðu hrinu reyndu Álftanes stelpur að spila áfram þrátt fyrir að vera með meiðsli en það gekk ekki eftir og vann BF sigur 25-8 og staðan orðin 2-2. Í lokahrinunni var aftur reynt að byrja og nú tóku gestirnir strax leikhlé áður en stelpurnar voru komnar inn á völlinn, en spiluðu svo í nokkrar mínútur en ein þeirra var bara haltrandi og náði ekki að beita sér. Leiknum var samt hætt vegna slæms mígrenis hjá öðrum leikmanni Álftanes.  Leiknum var því hætt og sigraði BF hrinuna 25-0 og leikinn 3-2.

Flottur endurkomusigur hjá BF stelpunum í dag. Þær unnu fjóra leiki af 12 og enda með ellefu stig í töflunni. Liðin í kring eiga eftir að leika 1-2 leiki svo lokastaðan er ekki ljós á þessari stundu.