Blakfélag Fjallabyggðar og Fylkir mættust í íþróttahúsinu á Siglufirði í dag en liðin leika í 1. deild karla, Benecta deildinni. BF hafði ekki leikið í deildinni síðan 23. nóvember, en Fylkir átti leik um miðjan janúar. BF hefur gengið erfiðlega í vetur að sækja sigra og stig en liðið hafði aðeins 5 stig og 2 sigra fyrir þennan leik.

Fylkir byrjaði fyrstu hrinuna ágætlega á meðan BF elti. Fylkir komst í 1-4 og 4-8 og kom þá góður kafli hjá BF sem skoraði 5 stig í röð og komst yfir í fyrsta sinn í leiknum, 9-8. Fylkir átti þá virkilega góðan kafla og breyttu stöðunni skyndilega í 11-18 með 7 stigum í röð. BF reyndi að vinna upp muninn og komust í 16-20 og 17-22. Fylkir kláraði hrinuna nokkuð örugglega 18-25 og komust í 0-1.

BF strákarnir byrjuðu aðra hrinu vel og komust í 3-0 og 6-3. En Fylkir jafnaði leikinn í 6-6, 8-8 og 11-11. BF tók gott leikhlé í stöðunni 13-14 og komust yfir 16-14. Fylkir komst betur inn í leikinn á þessum tímapunkti og náðu forystu 18-21 og 20-23 og var nokkur spenna síðustu mínúturnar. Fylkir vann þó hrinuna 21-25 eftir mikla baráttu.

Þriðja hrina var svipuð, BF leiddu með litlum mun fyrstu 10 mínúturnar, staðan var 4-2 og 10-8 og var hérna jafnræði með liðunum. Fylkir náði hinsvegar góðu forskoti og komust í 12-16 og skoruðu hér 5 stig í röð. BF tók hér leikhlé en náðu ekki að komast almennilega inn í leikinn og ógna Fylki. Gestirnir komust í 15-21 en BF minnkaði muninn í 17-21, en Fylkir skoraði síðustu fjögur stigin og unnu hrinuna 17-25 og leikinn nokkuð örugglega 0-3.

Frá fyrri leik liðanna í Fylkishöllinni.