20:00 Atskákmót Sauðárkróks í Safnahúsi staðarins. Allir velkomnir.

Á afmælisdegi Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslendinga. Teflt verður víða um land; í sundlaugum, skólum, kaffihúsum og vinnustöðum í tilefni dagsins. Kjörorð dagsins er: Upp með taflið!

Skákdagur Íslands er haldinn í fyrsta sinn æi dag, fimmtudaginn 26. janúar. Skákdagurinn er haldinn til heiðurs Friðrik Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslendinga. Friðrik verður 77 ára þennan dag og tekur virkan þátt í hátíðahöldum.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson heldur móttöku til heiðurs Friðrik á Bessastöðum, en meðal annarra gesta verða þau börn sem í febrúar tefla fyrir Íslands hönd á Norðurlandamóti barna. Fjölmiðlum er boðið að vera viðstaddir á Bessastöðum, þar sem Friðrik mun m.a. tefla við Nansý Davíðsdóttur, 10 ára, sem er nýkrýndur Íslandsmeistari barna, fyrst stúlkna á Íslandi.

Að Skákdeginum standa Skáksamband Íslands, Skákakademía Reykjavíkur, Skákskóli Íslands og taflfélög um allt land, í samvinnu við skóla, íþróttafélög, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga.

Markmiðið er að heiðra Friðrik Ólafsson, fyrir einstakt framlag til samfélags okkar í heild og skákarinnar sérstaklega, jafnframt því að sýna þá grósku sem er í íslensku skáklífi um allt land.