íþróttahúsið Sauðárkróki

Ársreikningur Skagafjarðar fyrir árið 2023 var samþykktur samhljóða við síðari umræðu í sveitarstjórn sl. miðvikudag. Rekstrarafgangur samstæðunnar var samtals að upphæð 123 milljónir króna, afborganir langtímalána voru hærri en taka nýrra lána annað árið í röð og skuldahlutfall og skuldaviðmið lækkuðu einnig annað árið í röð, auk þess sem eiginfjárhlutfall og handbært fé í árslok hækkuðu á milli ára. Þá jókst veltufé frá rekstri verulega á milli ára sem og fjárfestingar. Íbúum Skagafjarðar fjölgaði um 70 á milli ára.

Nánar um ársreikninginn:

Ársreikningur Skagafjarðar fyrir árið 2023 samanstendur af upplýsingum um A-hluta sveitarsjóðs og A- og B-hluta samantekinn. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóðs og þjónustustöðvar. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf., Flokka ehf. og Eyvindarstaðaheiði ehf., auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð sveitarfélagsins, þ.e. Norðurá bs. og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Rekstrartekjur Skagafjarðar námu á árinu 8.950 m.kr. af samstæðunni í heild, A- og B-hluta. Þar af voru rekstrartekjur A-hluta 7.462 m.kr. Rekstrargjöld samstæðunnar að frátöldum afskriftum og fjármagnsliðum voru 7.843 m.kr., þ.a. A-hluta 6.879 m.kr. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er jákvæð um 1.107 m.kr., þar af er rekstrarniðurstaða A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði jákvæð um 582 m.kr. Afskriftir eru samtals 321 m.kr., þar af 176 m.kr. hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals 670 m.kr., þ.a. eru 534 m.kr. fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta á árinu 2023 er jákvæð um 123 m.kr. en rekstrarniðurstaða A-hluta er neikvæð um 128 m.kr.

Eignir Skagafjarðar A- og B-hluta voru í árslok samtals 14.539 m.kr., þ.a. voru eignir A hluta 11.135 m.kr. Skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2023 samtals 10.196 m.kr., þ.a. hjá A-hluta 8.872 m.kr.. Langtímaskuldir námu alls 6.439 m.kr. hjá A- og B-hluta auk 630 m.kr. næsta árs afborgana. Eigið fé nam 4.343 m.kr. hjá samstæðunni í árslok og er eiginfjárhlutfall 29,9%. Af þessari tölu nam eigið fé A-hluta 2.262 m.kr. og eiginfjárhlutfall 20,3%. Lífeyrisskuldbindingar nema 1.937 m.kr. í árslok.

Veltufé frá rekstri A- og B-hluta nam 1.226 m.kr., þar af er veltufé frá rekstri A-hluta 752 m.kr. Handbært fé frá rekstri A- og B-hluta er 1.163 m.kr. Fjárfestingahreyfingar námu á árinu 2023, 962 m.kr., þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 1.099 m.kr. Afborganir og skuldbreytingar langtímalána á árinu 2023 eru 703 m.kr., handbært fé nam 459 m.kr. í árslok. Tekin voru ný langtímalán að fjárhæð 620 m.kr.

Í 64. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Frá heildarskuldum og skuldbindingum er heimilt að draga frá hluta lífeyrisskuldbindinga sem og tekjur og skuldir veitna og langtímakröfu vegna Brúar lífeyrissjóðs. Hjá Skagafirði er skuldahlutfall í ársreikningi fyrir árið 2023, 113,9% án þess að dreginn sé frá sá hluti af heildarskuldum sem heimilað er í lögum og reglugerð. Skuldaviðmið er 86,9% þegar búið er að draga frá það sem heimilt er.

Ársreikninginn er að finna hér og greinargerð sveitarstjóra er að finna hér.

Texti: skagafjordur.is