Ársfundur Byggðastofnunar verður haldinn á Sauðárkróki í  júní n.k. Á fundinum verður í annað sinn veitt viðurkenning Byggðastofnunar undir heitinu „Landstólpinn. Samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar“.

Jón Jónsson þjóðfræðingur á Kirkjubóli á Ströndum og menningarfulltrúi Vestfjarða hlaut Landstólpann árið 2011. Dómnefnd taldi hann með störfum sínum undanfarin ár hafa vakið athygli á heimabyggð sinni á Ströndum á jákvæðan hátt, m.a. í fjölmiðlum, á vefnum og á málþingum og að hann hafi verið frumkvöðull í uppbyggingu ferðaþjónustu og fræðastarfs á svæðinu.

Viðurkenningin skal veitt einhverjum þeim sem hefur vakið jákvæða athygli á landsbyggðinni með verkefni, starfsemi, umfjöllun á opinberum vettvangi eða með öðru móti. Viðkomandi gæti bæði hafa vakið athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags. Um getur verið að ræða einstakling, fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélag.