Atvinnu- og ferðamálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja nauðsynlegt fjármagn til refa- og minkaveiði í fjárlögum fyrir árið 2013 og að heimila endurgreiðslu virðisaukaskatts að fullu til sveitarfélaga vegna veiðanna.
Á liðnum árum hefur ríkið veitt sífellt minna fjármagni til málaflokksins og er svo komið að engu fjármagni er varið í refaveiði og litlu í minkaveiði.
Er þetta afar bagalegt þar sem ótvíræðar vísbendingar eru um fjölgun dýra í refastofnum og sýna rannsóknir fram á að refastofnar hafa tífaldast á 30 árum. Má í þessu sambandi m.a. benda á að ný greni finnast sífellt nær byggð í Skagafirði en áður hefur verið.
Vegna fjárskaðans sem hlaust af óveðrinu sem gekk yfir í september sl. má leiða líkum að því að refurinn muni í vetur hafa meira fæðuframboð en á liðnum árum og stofnunum vaxi því enn ásmegin. Afleiðingarnar verða frekari fækkun fugla og aukin tíðni dýrbitins sauðfjár.
Atvinnu- og ferðamaálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar telur nauðsynlegt að aftur verði teknar upp greiðslur úr ríkissjóði til fækkunar refa þannig að unnt sé að halda refastofnum í hæfilegri stærð og í jafnvægi við annað lífríki náttúrunnar.

Heimild: Skagafjordur.is