Skákfélag Akureyrar varð 100 ára þann 10. febrúar síðastliðinn.  Í tilefni af aldarafmælinu stendur félagið fyrir öflugasta skákmóti sem nokkru sinni hefur verið haldið á Akureyri.  Jafnframt er mótið haldið til minningar um Guðmund Arason skákfrömuð, en öld er nú liðin frá fæðingu hans.

Mótið fer fram í Hofi dagana 25. maí til 1. júní nk. Um sextíu keppendur eru skráðir til þátttöku, bæði innlendir og erlendir. Þekktustu erlendu gestirnir eru stórmeistaranir Ivan Sokolov frá Hollandi og svíinn Tiger Hillarp-Persson.  Auk þess að vera öflugir stórmeistarar eru þeir báðir þekktir fræðimenn og skákrithöfundar.

Á mótinu verður teflt um þrjá Íslandsmeistaratitla.  Þar munu flestir af okkar sterkustu stórmeisturum tefla um titilinn „Skákmeistari Íslands“. Má nefna meistara fyrra árs, Helga Áss Grétarsson, tólffaldan Íslandsmeistara Hannes Hlífar Stefánsson og þá Héðin Steingrímsson og Braga Þorfinnsson.  Einnig mætir til leiks margfaldur Íslandsmeistari kvenna, Lenka Ptácniková sem mun freista þess að verja meistaratitil sinn í kvennaflokki.

Mótið verður sett af bæjarstjóranum á Akureyri laugardaginn 25. maí kl. 15:00. Teflt verður á hverjum degi þar til mótinu lýkur viku síðar, laugardaginn 1. júní.