Miðlunartankur Norðurorku fyrir kalt vatn er kominn undir öryggismörk. Akureyringar eru því beðnir um að fara sparlega með kalda vatnið og vökva til dæmis ekki garða sína.

Stjórnendur Norðurorku höfðu ákveðið í morgun að senda út dreifibréf á alla notendur í Svalbarðstrandarhreppi og biðja þá um að spara vatn því að lindir í Vaðlaheiði og Víkurskarði séu ekki jafn gjöfular og hefðbundið er. „Svo gerðist það undir kvöldmat að það komu aðvörunarmerki frá vatnstönkum sem þjóna Akureyri og taka vatn frá Glerárdal, Hlíðarfjalli og Völlum í Hörgárdal um að við værum komin niður fyrir öryggismörk í vatnsbirgðum. Við þurfum því að grípa til ráðstafana og biðja fólk um að spara vatn í öryggisskyni,” segir Baldur Dýrfjörð, forstöðumaður þróunar hjá Norðurorku. Helgi Jóhannesson, forstjóri segir að gríðarleg þurrkatíð hafi verið að undanförnu og vatnslindirnar hafi því auðvitað aðeins gefið eftir.

Öryggismörkin á vatnsbirgðunum eru skilgreind tiltölulega hátt en engu að síður sett til að ákveðið ferli fari í gang enda feli þetta í sér að vatnsskömmtun geti verið yfirvofandi. „Þetta er í fyrsta skipti í líklega 50 ár sem stöndum frammi fyrir því að það geti komið til þess að þurfa að skammta vatn eða herða að notendum og biðja þá að fara sparlega með vatn. Við erum jafnvel að biðja bensínstöðvar um að skrúfa fyrir vatn á plönum og biðja stórnotendur að fara sparlega með,” útskýrir Birgir.

 

„Þrjú skemmtiferðaskip voru á Akureyri í dag og þau tóku mjög mikið vatn. Eitt af þessum skipum var stærsta skip sumarsins. Við erum að vona að tankarnir jafni sig í nótt þannig að það flæði nógu mikið inn til að fara yfir öryggismörk. Í öryggisskyni þykir okkur ráðlegt að beina því til bæjarbúa að fara sparlega með vatn, vökva ekki og láta vatn ekki renna að óþörfu,” segir Baldur.

Heimild:  Rúv.is