Í síðustu viku undirrituðu fulltrúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps nýja samninga um annars vegar framkvæmd fjölmargra verkefna sem Sveitarfélagið Skagafjörður tekur að sé að annast fyrir Akrahrepp og hins vegar um þjónustu embættis skipulags- og byggingarfulltrúa.

Taka samningarnir til verkefna eins og rekstur grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla, íþróttamiðstöðvar og íþróttamannvirkja, barnaverndar, frístundastarfs barna, dagþjónustu fyrir aldraða, þjónustu héraðsbókasafns, héraðsskjalasafns, Safnahúss, Byggðasafns, upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn, þjónustu atvinnu- og ferðamálafulltrúa, almannavarna, brunavarna- og eldvarnaeftirlits, fasteigna í sameign sveitarfélaganna tveggja, auk þjónustu skipulags- og byggingarfulltrúa.

Með gildistöku samninganna leggst samstarfsnefnd með Akrahreppi af en í staðinn funda byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar og hreppsnefnd Akrahrepps um framkvæmd samninganna að lágmarki einu sinni á ári, auk þess sem framkvæmdastjórar beggja sveitarfélaga funda oftar eftir þörfum.

Á myndinni má sjá fulltrúa úr samstarfsnefnd sveitarfélaganna og sveitarstjóra þeirra að lokinni undirritun samninganna.

Mynd: skagafjörður.is