Í tilefni Eyfirska safnadagsins þann 25. apríl, á sumardaginn fyrsta, fer fram áhugaverður fyrirlestur í Gránu, bræðsluhúsi Síldarminjasafnsins á Siglufirði kl. 14:00.

Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur ætlar í erindi sínu að rjúfa skarð í þann þagnarmúr sem hlaðinn er um sögu verkakvenna. Þætti þeirra í verðmætasköpun í sjávarútvegi er sjaldan gefinn verðugur gaumur, stundum mætti jafnvel ætla að saltfiskur og söltuð síld í tunnum væru dregin úr sjónum.

Síldarsöltun er iðulega kennd við ævintýri. Rómantík, söngur, dans og harmonikutónar leika þar aðalhlutverkin. Hvernig kemur sú mynd heim og saman við raunveruleika hversdagsins í vinnslu á silfri hafsins?

Sögur úr síldinni eru margar, en sárafáar frásagnir kvenna hafa því miður ratað á prent.

Áheyrendum verður boðið að fylgja síldarstúlkum með togara frá Reykjavík norður til Hjalteyrar. Hugað verður að undirbúningi þeirra fyrir vertíðina, ferðalagið og útlegðina. Litið verður inn um gættina á verbúðum verkakvenna og brugðið upp mynd af aðbúnað þeirra og sambúð. Kostur síldarstúlkna og vinnufatnaður verður gaumgæfður og drepið á þvotta, þrifnað og heilsufar. Áhugasömum hlustendum verður að sjálfsögu boðið að slást í för með verkakonum á söltunarplanið.

Þórarinn Hjartarson „syngjandi sagnfræðingur“ mun fylgja Margréti og bresta í söng undir lestri konu sinnar.

Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir.

Image may contain: text