Mjög góður árangur í orkuskiptum hér á landi kallar á að fjármögnun vegasamgangna verði óháð jarðefnaeldsneyti. Innleiðing nýs, einfaldara og sanngjarnara kerfis þar sem greitt er almennt kílómetragjald í stað sértækra gjalda á bensín og olíu hófst árið 2023. Markmiðið er að tryggja sjálfbæra fjármögnun öruggra og greiðra vegasamgangna um allt land samhliða orkuskiptum til framtíðar.

Fyrsta skrefið í innleiðingunni var lögfest í byrjun þessa árs þegar tekið var upp kílómetragjald fyrir rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla. Áform um innleiðingu kílómetragjalds fyrir notkun allra annarra ökutækja á vegakerfinu árið 2025 hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Áform um kílómetragjald fyrir öll ökutæki árið 2025

Fyrirhugað er að leggja fram frumvarp á haustþinginu um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja á vegakerfinu sem komi til framkvæmda þann 1. janúar 2025. Með frumvarpinu er áformað að greitt verði kílómetragjald fyrir notkun allra ökutækja í vegakerfinu eftir fjölda ekinna kílómetra í samræmi við þyngd ökutækja óháð því í hvaða flokki ökutækið er í. Í meginatriðum fela áformin í sér:

  • Kílómetragjald verði föst krónutala fyrir hvern ekinn kílómetra af ökutækjum með leyfða heildarþyngd 3.500 kg. eða minna, en fyrir liggur að þau ökutæki valda almennt áþekku vegsliti.
  • Ef leyfð heildarþyngd ökutækis er umfram 3.500 kg. mun fjárhæð kílómetragjalds taka mið af heildarþyngd út frá útreikningi á tilteknum þyngdarstuðli. Kílómetragjaldið mun þannig fara stighækkandi með aukinni þyngd ökutækis en fyrir liggur að niðurbrotsáhrif þungra bifreiða á vegum landsins eru almennt mun meiri heldur en léttari bifreiða. Það að kílómetragjald verði grundvallað á þyngd ökutækis gerir það að verkum að gjaldtakan tekur mið af raunverulegum akstri ökutækis á vegum landsins að teknu tilliti til þyngdar þess.
  • Kílómetragjald kemur í stað olíu- og bensíngjalda, sem nú eru greidd við kaup á jarðaefnaeldsneyti, og verða þau samhliða felld brott.
  • Gjaldið verði greitt mánaðarlega út frá áætlun um meðalakstur á mánuði og gert upp þegar ný kílómetrastaða ökutækis er skráð á Ísland.is eða hjá faggiltri skoðunarstofu. Innheimta gjaldsins verði þannig með áþekkum hætti og tíðkast fyrir orkureikninga veitufyrirtækja.

Innleiðing kílómetragjalds hefur gengið vel

Í upphafi þessa árs var tekið upp kílómetragjald fyrir rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla í flokki fólksbíla og sendibíla. Innleiðingin gekk vel og til marks um það hafði kílómetrastaða um 97% þeirra 51 þúsund bíla sem hún tók til verið skráð fyrir lok janúar. Sú reynsla sem hefur fengist, þeir lærdómar sem verið dregnir, auk mikilvægra ábendinga sem komið hafa fram, verða nýtt við áframhaldandi innleiðingu kerfisins árið 2025, en þá bætast við yfir 233 þúsund ökutæki.

Jákvæð þróun hefur veikt fjármögnun

Núverandi gjaldtökukerfi hefur miðast við ökutæki sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Ljóst er að það kerfi er að renna sitt skeið á enda vegna orkuskipta og minnkandi eldsneytisnotkunar.

Stjórnvöld hafa markað þá stefnu að auka notkun hreinna orkugjafa í samgöngum og hraða þannig orkuskiptum, m.a. með beitingu hagrænna hvata og að banna nýskráningu ökutækja sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti árið 2030. Þetta hefur skilað þeim árangri að Ísland er komið í fremstu röð meðal þjóða í orkuskiptum í vegasamgöngum, þannig eru rafmagns- og tengiltvinnbílar orðnir rúmlega 20% af fólksbílum í umferð.

Miklar framfarir í þróun sparneytnari bíla hafa leitt til þess að nýrri bílar geta ekið töluvert fleiri kílómetra á hverjum lítra eldsneytis og því greitt lægra gjald fyrir notkun. Þessi þróun hefur veikt getu ríkissjóðs til að fjármagna viðhald og uppbyggingu vega, en tekjurnar hafa þegar dregist saman um 30% á einum áratug. Með áframhaldandi orkuskiptum er ljóst að þær mundu fjara út, ef ekki verður ráðist í kerfisbreytingu.

Aukin umferð kallar á samgöngubætur

Samhliða árangri í orkuskiptum og minni eldsneytiseyðslu bílaflotans hefur fólki fjölgað og umferð aukist, með vaxandi álagi á vegakerfið og þörf fyrir samgöngubætur. Því er mikilvægt að til staðar sé kerfi sem getur stutt fjármögnun uppbyggingar og viðhalds vegasamgangna í takt við notkun.

Stjórnvöld hafa fjárfest í umfangsmiklum samgöngubótum á undanförnum árum til að bregðast við auknu álagi. Í drögum að þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2024-2038 eru enn frekari framkvæmdir boðaðar með það að markmiði að tryggja greiðar og öruggar vegasamgöngur um allt land.

Jafnræði óháð orkugjafa

Jafnræði meðal notenda vegakerfisins er lykilatriði í þróun þess til framtíðar, þar sem allir ættu að greiða í samræmi við notkun, óháð orkugjafa. Lögð er áhersla á að gjöld endurspegli þann kostnað sem notkun leiðir af sér. Með innleiðingu kílómetragjalds munu allir notendur greiða í samræmi við notkun og þyngd ökutækja. Þannig mun gjaldtakan endurspegla betur raunverulegan kostnað við notkun vegakerfisins.

Hvatar til orkuskipta

Nýtt kerfi tryggir að fjárhagslegur hvati verði áfram til orkuskipta. Í kerfisbreytingunni felst hækkun á kolefnisgjaldi sem einnig styður við þennan hvata. Í nýju kerfi verður orkukostnaður og viðhaldskostnaður rafmagnsbíla áfram umtalsvert lægri en bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Þá veitir Orkusjóður að hámarki 900 þús. kr. styrk til einstaklinga og fyrirtækja til kaupa á hreinorkubílum.

Vegir okkar allra

Á vefsíðunni Vegir okkar allra er að finna upplýsingar um nýja nálgun stjórnvalda á fjármögnun vegakerfisins sem innleidd verður í skrefum á næstu árum. Þar er að finna almennar upplýsingar um tilefni kerfisbreytingarinnar, spurt og svarað auk ýtarlegri greina um þróun í fjármögnun vegainnviða.

  • Áformaskjalið er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda til og með 12. ágúst.