Talsverður erill var hjá lögreglunni á Dalvík í nótt og í morgun vegna ölvunar á tjaldstæðum í bænum, en Fiskidagurinn mikil var haldinn þar hátíðlegur í gær. 25 til 30 þúsund manns voru á Dalvík í gær.
Fjögur fíkniefnamál komu upp í bænum í nótt; þrjú smávægileg, en í því fjórða gerði lögregla upptækar tuttugu e töflur og nokkur grömm af kókaíni. Mjög hlýtt var á Dalvík í nótt; nokkrir fengu sér sundsprett í sjónum við höfnina, og aðrir reyndu að komast í sundlaugina í bænum, en voru jafnharðan reknir upp úr. Gestir eru nú byrjaðir að halda heim á leið, en síðan í morgun hafa lögreglumenn boðið ökumönnum að koma og blása í áfengismæla, til að sjá hvort þeir séu tilbúnir að halda af stað. Að sögn lögreglu hafa tugir nýtt sér þessa þjónustu.
Heimild: Rúv.is