Skagafjarðarhafnir munu taka á móti 14 skemmtiferðaskipum á næstu þremur árum. Tvö skip koma í ár, átta árið 2021 og fjögur árið 2022. Ráðgert er að fara í breytingar og viðbætur á Sauðárkrókshöfn og Hofsóshöfn.  Umsvif hafnarsjóðs hafa aukist mikið síðustu ár og hafa tekjur hans ríflega tvöfaldast frá árinu 2015.

Á samgönguáætlun 2020 til 2024 eru áætlaðar 385 milljónir í framlag ríkissjóðs til hafnarframkvæmda á Sauðárkróki og Hofsósi í endurbyggingu viðlegukanta, viðhaldsdýpkana og frumrannsókna vegna stækkunar á Sauðárkrókshöfn.