Hin árlega Fjarðarganga fer fram í Ólafsfirði, laugardaginn 8. febrúar. Eftir frábæra Fjarðargöngu á síðasta ári hófst strax undirbúningur fyrir næstu göngu. Metþátttaka var í göngunni árið 2019 eða 150 manns og var uppselt.
Fjarðargangan er hluti af Íslandsgöngunni sem er mótaröð hjá Skíðasambandi Íslands í skíðagöngu.
Í ár er aftur orðið uppselt í gönguna og er von á 240 þátttakendum. Mikill metnaður er lagður í gönguna af Skíðafélagi Ólafsfjarðar svo að upplifun þátttakenda og áhorfenda verði sem skemmtilegust. Keppnisbrautin er gerð með því markmiði að allir geti tekið þátt, ungir, gamlir, reyndir og óreyndir.
Brautin liggur meðal annars um götur á Ólafsfirði. Reynt er að gera viðburðinn glæsilegan með mikilli umgjörð, stemmningu og flugeldum.  Fyrsta konan og fyrsti karlinn í göngunni fá blómakrans.
Verðlaunaafhending og kaffisamsæti er að keppni lokinni, sannkölluð veisla að hætti heimamanna.
Íbúar Fjallabyggðar og skíðaáhugafólk er hvatt til að mæta og fylgjast með göngunni.
Reiknað er með að heimamenn sé um 40 af þessum 240 sem gert er ráð fyrir í göngunni. Gera má ráð fyrir að hótel og gistiheimili á svæðinu séu vel nýtt þessa helgina. Svona viðburður skiptir samfélagið og fyrirtæki miklu máli í Fjallabyggð.
Image preview
Texti og myndir: Aðsent
Image preview
Image preview