Vinadagurinn var haldinn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í dag, 6. september.

Öll grunnskólabörn í Skagafirði ásamt skólahópum leikskólanna mættu til að skemmta sér saman eins og sannir vinir gera með söng, leik og dansi. Voru þar m.a. flutt atriði frá öllum grunnskólunum í Skagafirði, auk þess sem hljómsveitin Úlfur úlfur hélt uppi stuðinu að loknum atriðum nemenda og kynningu á hugmyndafræði vinaverkefnisins. Óhætt er að segja að dagurinn hafi verið vel heppnaður og skemmtu um 650 börn sér konunglega saman enda maður manns gaman eins og vel er þekkt.

Vinadagurinn var haldinn í tengslum við vinaverkefnið í Skagafirði og er í raun tillaga og útfærsla nemendanna sjálfra á því hvernig hægt er að efla vináttu og samveru þeirra í milli.

Vinaverkefnið er samstarfsverkefni leik-, grunn-, og framhaldsskóla í Skagafirði, frístundadeildar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, íþróttahreyfingarinnar og foreldrasamtaka í Skagafirði. Hefur verkefnið hlotið mikla athygli og fékk m.a. Foreldraverðlaun Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra, á síðasta ári. Höfuðmarkmið verkefnisins er að ekkert barn í Skagafirði upplifi vinalausa æsku.

Nánari upplýsingar um vinaverkefnið er að finna á vefsíðunni www.vinaverkefnid.is.