Viðræður við tvö flugfélög um áætlunarflug til Sauðárkróks standa nú yfir, en flug þangað lagðist af um áramótin.
Um áramótin hætti flugfélagið Ernir að fljúga til Sauðárkróks en flugfélagið treysti sér ekki til þess að halda áætlunarflugi þangað áfram nema framlag frá ríkinu, sem nemur um 10 milljónum á ári, væri aukið. Heimamenn eru ekki sáttir við flugleysið og hafa staðið í viðræðum við tvo flugrekstaraðila um áframhaldandi áætlunarflug á Krókinn.
„Við erum að vonast til þess að með því að geta breytt hér áætluninni þá náum við upp þeim fjölda flugfarþega sem þarf til þess að þetta flug beri sig, miðað við þetta 10 milljón króna framlag,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Skagafjarðar.
Skoðanakönnun sem gerð var meðal fyrirtækja í Skagafirði sýnir að heimamenn eru tilbúnir til þess að fyrirframgreiða flugmiða fyrir allt að 18 milljónir króna til að koma fluginu aftur á, en að sögn Stefáns skiptir áætlunarflugið miklu máli fyrir atvinnulífið á svæðinu, ekki síst fyrir þau fyrirtæki og stofnanir sem þurfa að vera í góðum tengslum við höfuðborgina.
Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, segir missi flugsins breyta miklu. „Þetta hefur óhagræði með sér í för, tvímælalaust, við verðum þá að leysa þau mál einhvernvegin öðruvísi. Annaðhvort með því að keyra eða fljúga í gegnum Akureyri sem aftur getur haft í för með sér kostnaðarauka.Þannig að við sjáum mjög á eftir fluginu.“
Stefán Vagn ætlar ekki að gefast upp og segir að Sauðkrækingar hvorki vilji né geti verið án flugsamgangna. „Ég er fullur bjartsýni á að þetta gangi og við náum að leysa þetta mál, ég trúi ekki öðru.“