H-listinn í Fjallabyggð hefur lagt fram tillögu um að sveitarfélagið fari í viðræður við Arion banka um hugsanleg kaup á húsnæði bankans í Ólafsfirði. Ef af verður megi flytja bókasafn, fundaraðstöðu og aðstöðu deildarstjóra Fjallabyggðar úr Ólafsvegi 4 þar sem aðgengi er óásættanlegt og aðstaða ekki nægilega stór. Tillaga H- listans gerir ráð fyrir að áfram verði leigð út skrifstofurými á annarri hæð ásamt því að starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Neon eða listaverkasafn Fjallabyggðar verði staðsett á 3. hæð hússins. Þá er gert ráð fyrir að starfsemi héraðsskjalasafns eða að minnsta kosti hluti hennar flytjist í Ólafsfjörð. Húsnæði að Ólafsvegi 4 yrði selt.

Ekki er gert ráð fyrir kaupum á húsnæðinu né flutningi bókasafns eða annara safna Fjallabyggðar á fjárhagsáætlun ársins 2019. Ásett verð eignarinnar sem um ræðir er 76 milljónir króna.

Meirihluti bæjarráðs lagði þó til á sama fundi að stofnaður yrði vinnuhópur um framtíðarhúsnæði fyrir félagsmiðstöðina Neon og að skoðaður yrði kostnaður vegna kaupa á húsnæði Arion banka í Ólafsfirði, hönnunar og lagfæringar á húsnæði Arion banka.  Einnig að gert verði mat á söluverðmæti húseignar að Ólafsvegi 4.