Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Víðir áttust við í dag í Lengjubikarnum, en leikurinn fór fram á Akureyri. KF spilaði nokkuð breyttu liði og vantaði nokkra fastamenn í byrjunarliðið, en ný andlit fengu að spreyta sig í dag. Í markinu var t.d. Sindri Leó Svavarsson (18 ára) að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik (KSÍ leik) fyrir félagið, hann hafði þó leikið nokkra leiki á Kjarnafæðismótinu, en þeir telja ekki sem KSÍ leikir.  Víðir hefur spilað síðustu árin í 2. deildinni og hafa fengið til sinn góðan liðstyrk fyrir sumarið, en liðið samdi nýlega við 8 nýja leikmenn.

Það voru Víðismenn sem byrjuðu leikinn mun betur og skoruðu fyrsta markið strax á 7. mínútu og var þar að verki Helgi Þór Jónsson, fyrirliði liðsins. Á 15. mínútu fengu Víðismenn svo vítaspyrnu og úr henni skoraði einnig Helgi Þór, staðan orðin 0-2 í upphafi leiks.  Mehdi Hadraoui skoraði svo þriðja mark Víðismanna á 27. mínútu og var staðan því 0-3 í hálfleik.

Bæði liðin nýttu svo sínar skiptingar í síðari hálfleik, en fleiri urðu mörkin ekki og unnu Víðismenn sannfærandi sigur á KF, 0-3.

Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.