Kennarar og nemendur í málmiðna- og vélstjórnardeild Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki hafa undanfarnar vikur unnið hörðum höndum við smíði og frágang Eddunnar. Um er að ræða verðlaunagrip Eddunnar, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunanna. Þetta kemur fram á vef fnv.is.

Eddan er hönnuð og smíðuð af Árna Páli Jóhannssyni í málmiðna- og vélstjórnardeild FNV.  Að smíðinni komu kennarar deildarinnar og u.þ.b. 30 nemendur. Auk verðlaunagripsins sjálfs sá tréiðnadeild skólans um smíði forláta kassa utan um gripina.

Við smíði Eddunar var stuðst við handverk og nýjustu hátækni í tölvustýrðum iðnvélum en skólinn býr yfir tveimur Haas tölvustýrðum rennibekkjum og einum yfirfræsara af sömu tegund. Við smíði kassans var stuðst við ævaforna eldsmíði við smíði lama, handfanga og læsinga, göfugt handverk, tölvustýrðar iðnvélar og nútíma FabLab tækni. Bæði verðlaunagripirnir og kassinn endurspegla þá miklu þekkingu og þann fjölbreytta tækjakost sem nemendur skólans hafa aðgang að í iðnnámsdeildum skólans.

Þess má geta að við smíði Eddunnar fengust nemendur jafnfram við gerð gæðahandbókar í kringum smíðina sem nýtist þeim í námi þeirra.