Vélsleðamaður féll niður um ís á Svínavatni, skammt frá Húnavöllum, á fjórða tímanum í gær. Ísinn á vatninu reyndist ótraustur og um fimmtíu metra frá landi brotnaði hann.

Tveir urðu vitni að óhappinu og gátu dregið manninn upp úr með kaðalspotta. Vélsleðinn sökk hins vegar til botns. Björgunarsveitir voru kallaðar út þar sem óttast var að maðurinn kólnaði hratt niður í vatninu en þær voru afturkallaðar þegar í ljós kom að maðurinn náðist fljótt upp úr vatninu.

Honum varð ekki meint af volkinu og þurfti ekki á frekari aðhlynningu að halda, eftir að hann komst í þurr föt.

Björgunarsveitarmenn vinna þó að því að ná sleðanum upp úr vatninu en lögreglan á Blönduósi telur að það sé hátt í tveggja metra djúpt þar sem sleðinn fór niður.

Heimild: Rúv.is