Sápuboltamótið var haldið í þriðja sinn um helgina í Ólafsfirði og er orðinn að stórum og skemmtilegum viðburði sem minnir helst á stemningu á Þjóðhátíð í Eyjum. Keppendur mæta í skrautlegum búningum og gleðin skín á hverju andliti enda leyfilegt að fá sér öl fyrir leik. Lokahóf og ball var haldið eftir mótið í Tjarnarborg og var góð mæting á þann viðburð. Mótshaldarar og ábyrgðarmenn mótsins eru: Ásgeir Frímanns, Friðrik Vestmann, Friðrik Örn, Gretar Áki, Heimir Ingi, Jóhann Þór, Viktor Freyr, Daníel Ísak og Örn Elí.
Úrslit og verðlaun
Júllurnar komu sáu og sigruðu mótið eftir æsi spennandi úrslitaleik við Beljur á svelli en sigurliðið fékk að launum farandbikar sem hefur gengið sigurliða á milli frá því að mótið var haldið fyrst 2017.
Farandbikarinn er steinn, rúmlega 30 kg að þyngd og hvert ár er nafn sigurliðsins grafið í steininn.
Flinstones Fam fékk verðlaun fyrir búninga mótsins en þær mættu á mótið uppklæddar sem Flinstones fjölskyldan á heimasmíðuðum bíl. Sindri Valdimarsson fékk nafnbótina byltukóngurinn 2019 en sama hvað hann reyndi virtist hann ekki geta staðið í lappirnar á sleipum dúknum og átti hverja byltina á fætur annarri .
Fc Timbraðir var valið lið mótsins en það skipti litlu máli hvort að boltinn væri í þeirra marki eða andstæðingsins, drengirnir brostu allan tímann, alvöru menn þar á bæ.
Helgi Barðason fékk verðlaun fyrir mark mótsins en þeir sem sáu markið segja það hafi ekki verið síðra en mark Eric Cantona á móti Sunderland árið 1996. Síðast en ekki síst var það liðið Beljur á Svelli sem að vann verðlaun fyrir mútur ársins en liðið var duglegt að gefa dómurunum banana að borða þegar farið var að sjást að þeir voru farnir að vera svangir.
Þess má geta að það voru 16 aðkomu lið þetta árið og liðið sem að fékk verðlaun fyrir múturnar kom frá Vestmannaeyjum og einnig var lið sem að kom frá Danmörku að taka þátt.
Myndir með frétt eru frá Guðnýju Ágústsdóttur.